Vel á fimmta þúsund börn komin á frístundaheimili

Skóli og frístund

""

Enn er óráðið í um eitt hundrað stöðugildi í skóla- og frístundastarfi í borginni. Helmingur þeirra eru 50% störf á frístundaheimilum. 

Þann 26. september var send út fyrirspurn til stjórnenda í skóla- og frístundastarfi borgarinnar til að kanna stöðuna í ráðningarmálum. Samkvæmt svörum þeirra á eftir að ráða í 51 stöðugildi í leikskólum, 15 í grunnskólum og 51 í frístundastarfi. 

Í leikskólunum á eftir að ráða í 4 stöðugildi deildarstjóra, um 20 stöðugildi leikskólakennara á deild og um 18 stöðugildi í stuðning.

Í grunnskóla á eftir að ráða í 8,5 stöðugildi kennara, um 2 stöðugildi stuðningsfulltrúa og um 3 stöðugildi skólaliða.

Á frístundaheimilin vantar 108 starfsmenn í hálft starf. Þar af er ómannað í 21,5 stöðugildi í starfi með fötluðum börnum og ungmennum.

Fyrir tveimur vikum átti eftir að ráða í 70,5 stöðugildi í leikskólum og 125 starfsmenn í 64 stöðugildi á frístundaheimilum. 

Nú hafa um 4.421 börn verið tekin inn á frístundaheimilin, en alls bárust 4.568 umsóknir. Því eru enn rösklega eitt hundrað börn á biðlista. Á sama tíma í fyrra voru um 78 börn á biðlista en þá voru umsóknir færri en nú eða um 4.366.