Veitingavagnar á götumatarmarkað í Fógetagarði

Atvinnumál Mannlíf

""

Matarmarkaður í Fógetagarði verður með breyttu sniði í sumar því veitingavagnar fá að vera með í þeirri lifandi stemningu sem myndast hefur undanfarin ár. Í sumar verður boðið uppá aðstöðu fyrir veitingavagna á torginu frá  15. maí - 31. ágúst og mun Torg í biðstöðu verkefni Reykjavíkurborgar hafa umsjón með svæðinu og búa til umgjörð um matarmarkaðinn. 

Reykjavíkurborg óskar eftir umsóknum um aðstöðu fyrir matsöluvagna í Fógetagarði. Í boði eru dagsöluleyfi fyrir fjóra matsöluvagna. Leyfið gildir á milli 09:00 og 21:00 alla daga á umræddu tímabili en gerð verður krafa um að lágmarksviðvera verði á milli 11:00 og 20:00 virka daga og 13:00 og 20:00 um helgar. Athugið að matsölubílar eru ekki heimilaðir á torginu.

Veitingavagnarnir mega ekki vera stærri en 350 x 220 sentimetrar fyrir utan beisli. Vagnana verður að vera hægt að draga með handafli inn á torgið eða þeir útbúnir með mótor sem keyrir þá inn á torgið. Akstur bíla er stranglega bannaður á torginu.

Leyfi fyrir matsöluvagn í Fógetagarði kostar 21.100 kr. á mánuði auk þess sem greitt er fyrir rafmagnsnotkun.

Við val á vögnum verður tekið mið af fjölbreytni veitinga á markaðnum og að ekki verði boðið upp á sömu eða sambærilegar veitingar og aðrir rekstraraðilar á og við torgið hafa til sölu.

 

Í umsókn skal eftirfarandi koma fram:

·        Upplýsingar um umsækjanda: nafn, heimilisfang, kennitala, símanúmer og netfang.

·        Upplýsingar um stærð, þyngd og útlit vagns. Mynd af vagni skal fylgja.

·        Upplýsingar um allar veitingar sem fyrirhugað er að selja.

·        Upplýsingar um aflgjafa vagnsins. Er vagninn sjálfbær eða þarfnast hann rafmagnstengingar? Hver er áætluð raforkuþörf í kW?

Umsækjendur þurfa að fá starfsleyfi fyrir matsöluvagn frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og þarf starfsleyfið að vera gefið út á sömu kennitölu og umsókn um aðstöðu fyrir matsöluvagn í Fógetagarði.

Umsóknir skal senda á netfangið edda.ivarsdottir@reykjavik.is í síðasta lagi mánudaginn 10. apríl 2017.