Vatns- og flokkunarverðir funduðu með borgarstjóra í Heiðarborg

Skóli og frístund

""

Umhverfisnefnd elstu barnanna í leikskólanum Heiðarborg í Seláshverfi fundaði með borgarstjóra í morgun og kynnti honum hvernig börnin gæta umhverfisins alla daga. 

Elstu börnin í Heiðarborg skipta með sér verkum í umhverfisstarfinu, en leikskólinn hefur tvisvar sinnum fengið viðurkenninguna Grænfánann fyrir það starf. Börnin skipta með sér verkum og eru ljósaverðir, vatnsverðir, skógarverðir og flokkunarverðir á víxl og sjá þá t.d. til þess að spara rafmagnskostnað skólans og flokka og endurnýta ýmislegt rusl sem til fellur.  

Á fundinum í morgun sögðu börnin borgarstjóra frá því hvernig þau njóta náttúrunnar og umhverfisins í Seláshverfinu en þar er umhverfismennt mjög í hávegum höfð og samstarf á milli leikskóla og grunnskóla í útinámi og umhverfismenntuninni. Meðal annars er Heiðarborg í samstarfi við Blásali, Rauðaborg og Selásskóla með grenndarsvæði sem kallast Heimahagar. 

Borgarstjóri kom einnig færandi hendi í Heiðarborg og sýndi börnunum teikningu af fyrirhugaðri endurgerð leikskólalóðarinnar, en framkvæmdir við hana hefjast nú í sumar. Börnin höfðu áður komið á fund borgarstjóra og greint honum frá því að þau vildu fá klifurtæki á lóðina og undirlag undir trén. Í kjölfarið var kastala leikskólans breytt og sett klifuraðstaða á hann.

Óhætt er að segja að fundur umhverfisnefndar Heiðarborgar hafi verið líflegur og fróðlegur fyrir alla fundargesti enda mikilvæg hagsmunamál á dagskrá. Í nefndinni sitja elstu börn leikskólans, fulltrúar starfsfólks og fulltrúar foreldra. Heiðarborg tekur einnig þátt í verkefninu Grænum skrefum hjá Reykjavíkurborg.