Varfærin fjárhagsáætlun og sterkur rekstur

Fjármál

""

Í dag var lagt fram í borgarstjórn frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 og fimm ára áætlun 2015-2019. Þetta er fyrsta fjárhagsáætlun nýs meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, VG og Pírata sem tók við í júnímánuði sl.

„Þetta er varfærin fjárhagsáætlun sem einkennist fyrst og fremst af ábyrgum rekstri og öðrum áherslum nýs meirihluta.  Reksturinn gengur í stuttu máli fínt en við þurfum að hafa aðeins fyrir þessu,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Fyrirtækin okkar eins og Orkuveitan eru enn að greiða niður miklar skuldir en á næstu fimm árum verða skuldir OR farnar niður um 80 milljarða.“

Í fjárhagsáætluninni má finna þær áherslur sem meirihlutinn kynnti í sumar: gjöld á barnafjölskyldur lækka, frístundakortið hækkar, stofnað er nýtt stjórnkerfis- og lýðræðisráð og áhersla lögð á velferðarmál, læsi, verk- og listgreinar í skólum auk uppbyggingar leigumarkaðar og annarra uppbyggingaráforma og innleiðingar Aðalskipulags Reykjavíkur. Borgarstjóri kynnti í ræðu sinni áform um að fjölga almennum félagslegum leiguíbúðum um 500 sem hluta af því að koma af stað 2.500-3.000 nýjum leigu- og búseturéttaríbúðum á næstu þremur til fimm árum.

Myndræn framsetning fjárhagsáætlunar 2015.
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2015.
Greinargerð fagsviða og B hluta fyrirtækja með Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2015.
Greinargerð með fjárhagsáætlun og 5 ára áætlun 2015-2019.

Kjarasamningar

Stærstu breytingarnar milli ára í rekstri borgarsjóðs tengjast því að kjarasamningar ársins færðu starfsfólki borgarinnar allnokkrar kjarabætur en í heild er útlit fyrir að kostnaður vegna kjarasamninga sé um 5,3 milljarðar.

Áfram aðhald í rekstri

Gerð er aðhaldskrafa í frumvarpinu á öll fagsvið til að mæta hækkandi launakostnaði. Framlög hafa engu að síður verið aukin lítillega til velferðarmála, einkum búsetuþjónustu við fatlað fólk, þjónustu við geðfatlaða og barnavernd.

Planið gengur eftir

Engu að síður endurspeglar fjárhagsáætlunin ágætan rekstur og viðunandi afkomu. Þar skiptir mestu að björgunaráætlun Orkuveitunnar, Planið, hefur gengið eftir. Myndarlegur afgangur myndast því til að greiða niður og lækka skuldir en á árunum 2014-2019 mun heildarniðurgreiðsla skulda OR vera 80 milljarðar.

Óbreyttir skattar

Skatthlutföll eru óbreytt í frumvarpinu en þó nokkrar gjaldskrár taka verðlags- eða kostnaðarhækkunum. Útsvar verður óbreytt eða 14,52%. Álagningarhlutföll fasteignaskatta og lóðarleigu verða sömuleiðis óbreytt sem þýðir að fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði verður áfram 0,2% af fasteignamati og að lóðarleiga af íbúðarhúsnæði verði áfram 0,2% af fasteignamati lóðar. Þetta er með lægstu álagningarhlutföllum fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði í landinu. Enn fremur er lagt til að álagningarhlutfall fasteignaskatta af opinberu húsnæði verði óbreytt eða 1,32%. Þá er lagt til að álagningarhlutfall fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði verði óbreytt eða 1,32% auk 25% álags eða alls 1,65%. 

Gjaldskrár leikskóla lækka

Gjaldskrár leikskóla munu hins vegar lækka og teknir verða upp systkinaafslættir, þvert á skólastig. Þetta vinnur gegn verðlagsáhrifum annarra hækkana og kjör barnafjölskyldna batna.

Fjárfestingar sem auka lífsgæði

Í fjárfestingum er áhersla lögð á verkefni sem auka lífsgæði í borginni. Undirbúin verður viðbygging við Sundhöllina og Borgarbókasafnið, auk skóla-, sundlaugar og menningarmiðstöðvar í Úlfarsárdal. Hjólreiðaáætlun er myndarleg sem fyrr og áhersla er lögð á tímabært viðhald á skólahúsnæði víða um borgina.  Reykjavíkurborg mun fjárfesta fyrir um 9,2 milljarða króna 2015. Þar af vegna fasteigna og stofnbúnaðar 4,4 milljarðar, gatnaframkvæmda 2,9 milljarðar, endurbóta og meiriháttar viðhalds 1,1 milljarður og kaupa á lóðum og skipulagseignum 200 milljónir króna.

Borgarsjóður áfram sterkur

Samkvæmt fjárhagsáætlun verður staða A-hluta borgarinnar sem sér um allan rekstur Reykjavíkurborgar áfram sterk. Eiginfjárhlutfall verður 57,2%.

Rekstrarniðurstaða A-hluta árið 2015 er áætluð jákvæð um 437 m.kr. Útkomuspá fyrir árið 2014 gerir ráð fyrir 130 m.kr halla sem einkum er rakið til mikillar hækkunar á launakostnaði vegna kjarasamninga sem gerðir voru á árinu.