Úttekt á eldhúsi að Vitatorgi sýnir frábært starf og ánægju neytenda

Velferð

""

Í úttektinni, sem unnin var að Rannsóknarþjónustunni Sýni, kemur fram að eldhúsið veitir frábæra og fagmannlega þjónustu og maturinn sem er framreiddur uppfyllir ánægju og eftirspurn viðskiptavina. Mikið tillit er tekið til kvartana og athugasemda sem koma frá viðskiptavinum.

Ráðgjafi frá Sýni heimsótti eldhúsið í mars og gerði úttekt á rekstri, matseðlum og innra eftirliti eldhúss auk þess að skoða næringargildi fæðis á tveggja vikna tímabili. Eldhúsið að Vitatorgi framleiðir 700-1300 máltíðir á dag, alla daga ársins, auk þess að reka kaffihús í borðstofu að Lindargötu 59.

Viðskiptavinir eru aldraðir, öryrkjar og gestir félagsmiðstöðva velferðarsviðs Reykjavíkur. Maturinn er heimsendur eða snæddur á félagsmiðstöðvum borgarinnar.
Heimsendi maturinn er eldaður með „cook and chill“ aðferðinni en það þýðir að maturinn er eldaður en síðan snöggkældur, honum pakkað, lokað og haldið við þar til honum er dreift í kældum hólfum. Maturinn er dagsettur og með honum fylgja leiðbeiningar um geymslu og eldun.

Aðrar máltíðir eru eldaðar samdægurs og dreift í hitaskápum til 15 móttökueldhúsa í Reykjavík og að síðustu er það matur sem eldaður er samdægurs og framreiddur að Lindargötu.

Starfsfólki er hrósað fyrir vel unnin störf en þau leggja mikið á sig til að láta vinnudaginn ganga vel upp. Lagt er upp úr því að fjölbreytni, samsetning og hollustu fæðisins sé í samráði við ráðleggingar Landlæknisembættisins.

Aðsókn að mötuneytinu hefur aukist jafnt og þétt frá 10 þúsund máltíðum á árinu 1997 í 28 þúsund máltíðir á árinu 2012. Vinsælast er Bayonne skinka, kjúklingalæri, lambakótilettur og London lamb en fæstir vilja soðinn fisk og grísasnitsel.

Alltaf má gera gott betra og gerðar voru tillögur um að sannprófa betur kæliferla, breyta skammtastærðum þannig að minna er af kjöti og fiski og meira af kolvetni, grænmeti og ávöxtum, minnka majones og nota þess í stað jógúrt og fituminni mjólkurvörur í sósur.  Einnig væri hægt að bjóða heilsusamlegri mat með hefðbundnum íslenskum mat. Að lokum var lagt til að auka fræðslu við matargerð, koma upp uppskriftabanka og fræða og hvetja neytendur um hollt matarræði.

Skýrsla Reykjavíkurborg - mötuneyti úttekt

Viðauki við úttekt um næringargildi