Úthlutað úr nýjum Miðborgarsjóði

Mannlíf Menning og listir

""

Hvatt til frumkvæðis og nýsköpunar með styrkveitingum nýs Miðborgarsjóðs.
Úthlutað verður úr nýjum Miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar í fyrsta sinn nú í sumar. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um styrki úr sjóðnum og er umsóknarfrestur til og með 5. júlí. Gert er ráð fyrir að úthlutað verði allt að 30 milljónum króna árlega til verkefna sem eiga að efla miðborgina.

 

Miðborgarsjóði er ætlað stuðla að því að miðborgin sé áhugaverður og aðlaðandi dvalar- og áfangastaður fyrir íbúa, gesti og hagsmunaaðila með því að auka fjölbreytni og hvetja til frumkvæðis, nýsköpunar og rannsókna. Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja verkefni sem eru í samræmi við þau leiðarljós sem má finna í stefnu um málefni miðborgar; heildstæð miðborg, miðborg allra, aðlaðandi miðborg, fjölbreytt miðborg og síðast en ekki síst, vel tengd og vistvæn miðborg. 

„Við göngum með mjög opnum huga til þessa verkefnis og biðjum fólk um að leyfa hugmyndum sínum að njóta vafans,“ segir Elísabet Ingadóttir, verkefnisstjóri miðborgarmála hjá Reykjavíkurborg.

„Allir geta sótt um hvort sem það eru íbúar, hagsmunaaðilar eða aðrir áhugasamir um miðborgina,“ segir Elísabet jafnframt.

Nánari upplýsingar hér að neðan:

Miðborgarsjóður úthlutunarreglur 

Stefna um málefni miðborgarinnar

Facebook síða Miðborgar Reykjavíkur