Úrslit í keppni um norrænar velferðarlausnir

Mannlíf Velferð

""
Það var hátíðarstemning í Osló í dag þegar Hákon prins af Noregi tilkynnti úrslit í verðlaunasamkeppni um sjálfstætt líf, tæknilausnir í velferðarþjónustu.  Norðmenn sigruðu keppnina með  AbleOn Medical baðgrind og hlaut hugmyndin ríflega 15 milljónir íslenskra króna í verðlaun.
 
Fimm hugmyndir kepptu  til úrslita; frá Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku og tvær frá Noregi.  Auk fyrstu verðlauna var veitt sérstök viðurkenning, tæplega þrjár milljónir, fyrir norræna samvinnu og kom hún í hlut verkefnisins AssiStep, göngugrind í tröppur sem minnkar líkur á því að fólk detti.  Að lokum voru veitt nemendaverðlaun, ein og hálf milljón, sem Ran Ma frá Danmörku fékk fyrir Siren socks  (snjallsokka fyrir sykursjúka)
Norræna nýsköpunarmiðstöðin (Nordic Innovation) ásamt norrænu höfuðborgunum fimm, Osló, Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og Reykjavík sem stóðu að keppninni.
Keppnin hefur staðið yfir í tvö ár og hefur vakið athygli á tæknilausnum sem auðvelda öldruðum og hreyfihömluðum að lifa sjálfstæðu lífi. Frumkvöðlar hvaðanæva á Norðurlöndum sendu inn 415 hugmyndir að lausnum um hvernig aldraðir og fatlaðir geti lifað sjálfstæðu lífi. Þar af áttu Íslendingar 64 hugmyndir og þar af þrjár hugmyndir í undanúrslitum en enga í lokahóp.
Íslensku verkefnin í 25 lausna úrslitum;
  • Ylgarðurinn (Thermal wintergarden) undir verkstjórn Þórdísar Harðardóttur.
  • Lipri ferðalangurinn (Agile Traveller) undir verkstjórn Ósk Sigurðardóttur.
  • E-21, sjálfstæð og Örugg æviár (Safe and Independent Ageing), sem er verkefni unnið í samvinnu Íslendinga og Dana undir verkstjórn Halldórs Axelssonar og Nicolai Söndergaard Laugesen.
Norræn verðlaunasamkeppni um sjálfstætt líf gekk vel og það er líklegra en ekki að þær tæknilausnir sem þar voru kynntar verði  í almennri notkun meðal aldraðra og fatlaðs fólks á næstu árum. Mikill vilji er meðal norrænu höfuðborganna að samvinnu í velferðarmálum.