Upplýsingamiðstöð ferðamanna er 100% að mati Vakans

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""
Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Aðalstræti hefur lokið innleiðingu Vakans en auk gæðavottunar þá hlýtur miðstöðin brons í umhverfisþætti Vakans. Upplýsingamiðstöðin uppfyllir 91,3% af almennu viðmiðunum og 100% af sértæku viðmiðunum Vakans sem má teljast glæsilegur árangur.
Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Aðalstræti hefur lokið innleiðingu Vakans en auk gæðavottunar þá hlýtur miðstöðin brons í umhverfisþætti Vakans. Upplýsingamiðstöðin uppfyllir 91,3% af almennu viðmiðunum og 100% af sértæku viðmiðunum Vakans sem má teljast glæsilegur árangur. Áður hafa sjötíu og eitt ferðaþjónustufyrirtæki hlotið Vakann þar af fimmtíu umhverfisvottun. Yfir áttatíu ferðaþjónustufyrirtæki eru nú í úttektar- og aðlögunarferli.
Vakinn er leiddur af Ferðamálastofu en verkefnið er unnið í náinni samvinnu við Samtök Ferðaþjónustunnar, Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálasamtök Íslands. Markmiðið með Vakanum er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og stuðningi ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Gæðaviðmið Vakans byggja á Qualmark, nýsjálensku gæðakerfi fyrir ferðaþjónustu, sem hefur verið  staðfært og  aðlagað að íslenskum aðstæðum. Umhverfisviðmið Vakans byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar ferðaþjónustu. 
 

,,Samkeppnishæfni áfangastaða byggir á mörgum samhangandi þáttum, s.s. ímynd, gæðum, öryggi og umhverfismálum. Upplýsingamiðstöð ferðamanna er hjartað í þjónustu borgarinnar við erlenda ferðamenn og hefur frammistaða miðstöðvarinnar þannig áhrif á orðspor Reykjavíkur sem eftirsóknaverðs áfangastaðar. Gæðaþjónusta eykur líkur á ánægju viðskiptavina miðstöðvarinnar og er leið til þess að skapa borginni samkeppnisforskot og sérstöðu meðal annarra borga,“ sagði Karen María Jónsdóttir deildarstjóri UMFR þegar hún tók við viðurkenningunni sl. föstudag. 


Um Upplýsingamiðstöð ferðamanna:

Höfuðborgarstofa rekur Upplýsingamiðstöð ferðamanna (UMFR) með fjármagni frá Reykjavíkurborg og Ferðamálastofu og þar starfa 30 manns. UMFR er opin alla daga ársins frá kl. 8-20 fyrir utan jóladag. UMFR hefur verið í Aðalstræti 2 frá árinu 2003 en í haust flytur starfsemin í Ráðhús Reykjavíkur. Áætlað er að hálf milljón ferðamanna muni sækja þjónustu miðstöðvarinnar árið 2016.