Uppbygging íþróttamannvirkja og íþróttastarfs í Breiðholti

Fjármál Framkvæmdir

""

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og Ingigerður Guðmundsdóttir, formaður ÍR, skrifuðu í dag undir samning um uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja í Breiðholti með fyrsta flokks þjónustu fyrir börn, unglinga og afreksfólk í huga.

ÍR mun áfram annast rekstur íþróttahúsanna í hverfinu, en það eru Íþróttahús við Seljaskóla og Austurberg. Af hálfu Reykjavíkurborgar verður viðhaldsþörf mannvirkja, sem og ástand búnaðar metið. ÍR fær húsaleigu- og æfingastyrk ár hvert í samræmi við reglur Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) og Reykjavíkurborgar.

Nýtt deiliskipulag fyrir Suður-Mjódd

Suður-Mjódd verður deiliskipulögð í heild sinni og þar verður afnotasvæði ÍR afmarkað sérstaklega og jafnframt verður gengið frá fyrirkomulagi svæðisins í heild sinni en það tekur til stíga, gróðurs, bílastæða og mannvirkja sem gert er ráð fyrir að rísi á næstu árum.

Þjónustuhús mun rísa við frjálsíþróttavöllinn og verður skipulag endurskoðað í því ljósi, sem og vegna göngutenginga við önnur mannvirki. Byggingareitir fyrir viðbyggingu við félagshús vegna bættrar félagsaðstöðu og fleiri búningsklefa, knatthúss og íþrótta- og keppnishúss, knattspyrnuvalla og áhorfendaaðstöðu verða markaðir í deiliskipulag.

Tvö ný íþróttahús með viðbyggingum vegna búningsaðstöðu

Á svæði ÍR byggir Reykjavíkurborg knatthús sem ÍR mun reka samkvæmt sérstökum rekstrarsamningi. Áætlað er að framkvæmdum við húsið verði lokið árið 2018 en hönnun hefjist á þessu ári.

Þá byggir Reykjavíkurborg einnig íþróttahús með löglegum handknattleiks- og körfuboltavelli fyrir æfingar og keppnir á vegum ÍR ásamt viðbyggingum vegna búningsklefa og bættrar félagsaðstöðu fyrir félagið, auk endurbóta á núverandi félagsheimili. Áætlað er að húsið verði tekið í notkun árið 2020 og að hönnun hefjist 2018.

Fimleikahús ásamt aðstöðu fyrir bardaga- og dansíþróttir

Samkvæmt samkomulaginu hefst nú í ár undirbúningsvinna fyrir byggingu fimleikahúss, en uppbygging þess á að hefjast í framhaldi af byggingu knatthússins og íþróttahússins. Starfshópur um fimleikahúsið á að skila áfangaskýrslu um fyrirkomulag og staðsetningu fyrir 1. maí 2018. Í því mannvirki verður gert ráð fyrir aðstöðu fyrir bardagaíþróttir félagsins, sem og dansíþróttir.  Áætlað er að byggingu fimleikahúss verði lokið fyrir haustið 2023.

Nýr frjálsíþróttavöllur næsta sumar

Á athafnasvæði ÍR í Mjódd standa nú þegar yfir framkvæmdir við frjálsíþróttavöll sem tekinn verður í notkun sumarið 2018. Á núverandi gervigrasvelli verður skipt um grasmottu og gúmmí í sumar.