Ungir umboðsmenn friðar

""

Fyrstu friðarfulltrúar Íslands, tíu og tólf ára nemendur úr grunnskólum í Reykjavík, útskrifast við  hátíðlega athöfn í Höfða föstudaginn 23. júní nk. kl. 10.

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, útskrifa fyrstu friðarfulltrúa landsins. Líf og Jón taka einnig á móti skilaboðum frá fyrstu umboðsmönnum friðar, Líf til að flytja borgarstjórn og Jón til Háskóla Íslands. Eliza Reid, forsetafrú, tekur á móti friðarboðum nemenda fyrir hönd forseta Íslands.

Börnin sýna afrakstur vinnu sinnar í samstarfi við leiðbeinendur á námskeiðinu.

Sumarnámskeið friðarseturs var haldið í fyrsta sinn dagana 19. - 23. júní 2017 í Fellaskóla.  Námið er fyrir tíu til tólf ára börn af ólíkum uppruna og markmið námsins er að vinna gegn fordómum og mismunun með því að stuðla að auknum samskiptum barna, bæði börnum sem eru fædd hér og uppalin og börnum af erlendum uppruna. Með náminu hljóta þau færni í að greina og leysa úr ágreiningi á friðsamlegan hátt.

Námið byggist á leikjum, verkefnum og listrænni tjáningu. Fulltrúar frá Landvernd, Félagi Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossi Íslands eru með fræðslu á námskeiðinu og unnið er verkefni tengt barnabókinni Flugan sem stöðvaði stríðið, í samstarfi við rithöfundinn Bryndísi Björgvinsdóttur og nemendur við Listaháskóla Íslands. Að útskrift lokinni halda fyrstu friðarfulltrúar Íslands í útskriftarferð í Viðey.

Námskeiðið er haldið í samstarfi við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Rauða kross Íslands og Háskóla unga fólksins.

HÖFÐI Friðarsetur er vettvangur fyrir þverfaglegt og alþjóðlegt samstarf með áherslu á hlutverk borga, smáríkja og almennra borgara í að stuðla að friði, friðarmenningu og friðarfræðslu. HÖFÐI Friðarsetur er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands en starfsemi setursins fer fram innan Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar um setrið.