Um 100 stúdentaíbúðir rísa í Brautarholti

Skipulagsmál

""

Um 100 stúdentaíbúðir munu rísa við Brautarholt samkvæmt nýju deiliskipulagi fyrir Rauðarárholt sem er í auglýsingu til 20. janúar. Íbúðirnar eru allar um 40 fermetrar að stærð og liggja einkar vel við vistvænum samgöngum þar sem vegalengdir í háskólana eru frekar stuttar.

Nýtt deiliskipulag Rauðarárholts með nýjum uppdráttum vegna Brautarholts 7 er í auglýsingu til 20. janúar. Þar kemur m.a. fram að bílastæðum verður fjölgað úr átta frá fyrri tillögu í 20 en það var gert eftir hagsmunaaðilakynningu. Þá hafa hús verið færð um tvo metra frá raðhúsum við Ásholtsbyggð frá fyrri auglýsingu.

Reykjavíkurborg hefur sett sér sjálfbæra skipulagsstefnu í tillögu að aðalskipulagi 2010-2030 þar sem finna má markmið um þéttingu byggðar sem felur í sér að nýta verðmæt landsvæði vel og efla vistvænar samgöngur. Rauðarárholt er lykilsvæði í miðborginni en það er í nálægð við verslun og þjónustu og kjörið fyrir vistvæna ferðamáta.

„Það er frábært að fá stúdentaíbúðir sem eru í göngufæri við Hlemm þar sem góðar strætósamgöngur eru við háskólasvæðið og Vatnsmýrina,“ segir Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs. „Við höfum reynt að vanda til skipulagsins. Ég leyni því ekki að ég er óþolinmóður í að fjölga leiguíbúðum í Reykjavík, meðal annars fyrir stúdenta og ungt fólk. Fleiri leiguíbúðir gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðari og tryggja fleirum öruggt húsnæði. Bygging 97 stúdentaíbúða við Brautarholt er hluti af því.“

Reist verður bygging við Brautarholt með u.þ.b. hundrað einstaklingsíbúðum fyrir stúdenta í 200 metra fjarlægð frá næstu strætóstoppistöð og í um 300 metra göngufjarlægð frá Hlemmi. Hver íbúð verður um 40m2 að stærð. Íbúðirnar verða í um 10 mínútna hjólafjarlægð frá Háskóla Íslands. Borgarstjórn fól umhverfis- og skipulagssviði í október sl. að fara í sérstaka skoðun og mótun aðgerða í bílastæðamálum á svæðinu og koma til móts við áhyggjur hagsmunaaðila.

Markmið með þéttingu er  m.a. að draga úr mengun í borginni en 70% af losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík núna er vegna bifreiða. Önnur losun er vegna atvinnustarfsemi, flugs, fiskveiða og siglinga. Losun koltvísýrings vegna bílaumferðar í Reykjavík var 231.500 tonn árið 2011 en markmiðið er að sú losun dragist saman í 153 þúsund tonn árið 2020 og í 63 þúsund tonn árið 2050.

Allar athugasemdir frá síðustu auglýsingu eru í gildi og þeim verður svarað aftur. Senda má inn nýjar athugasemdir á skipulag@reykjavik.is fyrir 20. janúar n.k.

Skipulagsuppdrættir Brautarholt 7.