Tveir skólar fá Menningarfána Reykjavíkurborgar

Skóli og frístund

""

Menningarfáni Reykjavíkurborgar var veittur í sjötta sinn í dag og kom að þessu sinni í hlut tveggja skóla, Hagaskóla og Dalskóla. 

Skólarnir tveir fengu þessa viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarstarf með börnum og unglingum og fyrir að hlúa að listkennslu og skapandi starfi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti fulltrúum skólanna Menningarfánann við líflega athöfn á Kjarvalsstöðum þar sem menningarstofnanir borgarinnar héldu stefnumót og kynntu fræðslustarf sitt á komandi skólaári.

Hagaskóli er fyrsti unglingaskólinn í borginni sem flaggar Menningarfánanum. Í skólanum skipa list- og verkgreinar veigamikinn sess. Allir nemendur hafa víðtækt val og flóru listgreina í sinni stundatöflu. Hagaskóli er í  Evrópusamstarfi um nýbreytni í kennsluaðferðum og tekur þátt í ýmsum þverfaglegum verkefnum sem miða að því að örva listsköpun. Eitt þeirra felur í sér að nemendur skrifa barnasögur sem þeir fara með í leikskóla í Vesturbænum og lesa upp fyrir börnin þar.  Á vorin eru þemadagar þar sem nemendur fá frjálsar hendur til listsköpunar og sýna þeir afraksturinn á uppskeruhátíðinni Listadögum. Þá setur Hagaskóli upp leikverk annað hvert ár þar sem margir unglingar fá að spreyta sig í ólíkum hlutverkum sviðslistarinnar.

Dalskóli hreppir nú Menningarfánann öðru sinni, en skólinn leggur ríka áherslu á frjótt, leikandi og fræðandi skólastarf á báðum skólastigum og í frístundarstarfinu. Sköpunarkraftur og hugmyndaflug barnanna er virkjað með ríku tónlistaruppeldi, myndlistaruppeldi, daglegum samsöng, kvikmyndagerð, smiðjuvinnu og reglulegum sýningum. Áhersla er lögð á sveigjanlega kennsluhætti og samvinnu, samþættingu námsgreina, þemanám, söguaðferð, útikennsla og lýðræðislegar aðferðir þar sem börnin stjórna ferðinni og ráða útkomunni. Skólinn hefur tekið þátt í Biophilia-menntaverkefninu í mörg ár og tekið virkan þátt í Barnamenningarhátíð með sýningum og viðburðum. 

Dalskóla og Hagaskóla er óskað til hamingju með Menningarfánann og megi hann lengi blakta!