Tveir leikskólar í Víkur- og Staðahverfi sameinaðir

Skóli og frístund

""
Leikskólarnir Bakki í Staðahverfi og Hamrar í Víkurhverfi í Grafarvogi verða sameinaðir.   
Sameining leikskólanna mun koma til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2017.  Skóla- og frístundaráð samþykkti tillögu þessa efnis á fundi sínum 24. ágúst.   

Haft verður náið samstarf við foreldra og starfsfólk um sameininguna og verður skipaður starfshópur skipaður fulltrúum beggja leikskóla sem gera mun áætlun um hvernig að henni verði staðið. 

Í greinargerð með tillögunni segir að með  sameiningu leikskólanna verði til tvær heildstæðar skólastofnanir í Víkur- og Staðahverfi með einn sameinaðan leikskóla og einn sameinaðan grunnskóla. Nú þegar sækja unglingar sem búsettir eru í Staðahverfi, nám sitt í Kelduskóla/Vík og tengsl hverfanna mætti efla enn frekar með þessari skólasameiningu.

Börnum hefur á undanförnum árum fækkað til muna í leikskólanum Bakka og telst hann því ekki hagkvæm rekstrarleg eining. Leikskólinn er ekki fullnýttur en hann rúmar 69 börn. Um 50 börn á leikskólaaldri eru búsett í Staðarhverfi. Bakki var áður rekinn með leikskólanum Bergi á Kjalarnesi undir heitinu Bakkaberg. Leikskólinn Berg var í vor sameinaður með grunnskóla og tónlistarskólanum á Kjalarnesi

Leikskólinn Hamrar rúmar 88 börn auk 16 barna í lausri stofu. Samtals mun nýr sameinaður leikskóli í Víkur- og Staðahverfi því rúma á bilinu 157 – 173 börn.

Akstursleið á milli starfseininga sameinaðs leikskóla er 1,7 km og stysta gönguleið um 1,8 km.


Samþykkt skóla- og frístundaráðs mun fara fyrir borgarráð til endanlegrar afgreiðslu.