Tungumálaregnboginn í Fellaskóla afhjúpaður

Skóli og frístund Mannlíf

""
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, afhjúpuðu í morgun listaverkið Tungumálaregnbogann í Fellaskóla sem nemendur skólans gerðu í tilefni af Barnamenningarhátíð 2016.
 
Menningarlegur fjölbreytileiki auðgar skólastarfið í Fellaskóla og lögð er áhersla á að virðing sé borin fyrir uppruna og menningu einstaklinga. Barnamenningarhátíð styrkti gerð listaverksins sem nemendurinir unnu á meðan á hátíðinni stóð.
 
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra og fyrrverandi nemandi Fellaskóla og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhjúpuðu verkið við hátíðlega athöfn í skólanum í morgun. Það var mikil gleði í skólanum þegar verkið var afhjúpað og boðið upp á skemmtidagskrá á sal af því tilefni.
 
Listaverkið heitir Tungumálaregnboginn og sýnir þann menningarlega fjölbreytileika sem skólinn státar sig af. Í skólanum eru töluð meira en 20 tungumál á degi hverjum og má sjá þau öll í listaverkinu Tungumálaregnboganum.
 
Til hamingju með fallega Tungumálaregnbogann Fellaskóli.