Tour of Reykjavík - hjólreiðakeppni fyrir keppnisfólk og almenning

Umhverfi Íþróttir og útivist

""
Allir sem áhuga hafa á hjólreiðum geta tekið þátt í Tour of Reykjavík sem haldin verður í fyrsta sinn þann 11. september nk. Keppnin var kynnt á torginu við Hörpu í dag. 
Í Tour of Reykjavík verður boðið upp á fjölbreyttar hjólaleiðir fyrir alla sem áhuga hafa á hjólreiðum, en keppnin sjálf mun hefjast og ljúka í Laugardalnum. Keppendur geta ýmist hjólað alla leið á Þingvelli eða farið styttri hringi í borginni. Fyrir yngstu keppendurnar verður boðið upp á hjólahring í Laugardalnum sjálfum. 
 
Tour of Reykjavik er ný hjólakeppni sem Íþróttabandalag Reykjavíkur stendur fyrir með stuðningi Reykjavíkurborgar. Markmið keppninnar er annars vegar að almenningur taki virkari þátt í hjólreiðaviðburðum, en ekki síður að efla hjólreiðar á afreksstigi hér á landi. Vonir standa til að þátttaka erlendra gesta aukist ár frá ári, líkt og gerst hefur með Reykjavíkurmaraþonið. 
 
Tour of Reykjavík verður haldin annan sunnudag í september ár hvert og verður rás og endamark fyrir framan Laugardalshöllina. Verðlaunaafhending mun fara fram í anddyri Laugardalshallarinnar en einungis verða veitt verðlaun til keppenda í 105 km. leið og 40 km. leið. 
 
Leiðirnar í Tour of Reykjavík verða kynntar þegar nær dregur mótinu sjálfu, en skráning í keppnina hefst 9. júlí. Allir geta verið með og valið sér hjólahring við hæfi.