Tónlist, hönnun og viðburðir - í líflegri miðborg

Mannlíf Menning og listir

""

Alls bárust 35 hugmyndir að verkefnum til að lífga upp á miðborgina í Miðborgarsjóð Reykjavíkurborgar. Auglýst var eftir hugmyndum og var síðasti skiladagur 5. júlí síðastliðinn. Gert er ráð fyrir að úthlutað verði allt að 30 milljónum króna árlega til verkefna sem eiga að efla miðborgina.

Miðborgarsjóði er ætlað stuðla að því að miðborgin sé áhugaverður og aðlaðandi dvalar- og áfangastaður fyrir íbúa, gesti og hagsmunaaðila með því að auka fjölbreytni og hvetja til frumkvæðis, nýsköpunar og rannsókna. Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja verkefni sem eru í samræmi við þau leiðarljós sem má finna í stefnu um málefni miðborgar; heildstæð miðborg, miðborg allra, aðlaðandi miðborg, fjölbreytt miðborg og síðast en ekki síst, vel tengd og vistvæn miðborg.

Elísabet Ingadóttir, verkefnisstjóri miðborgarmála hjá Reykjavíkurborg segir þátttökuna hafa verið vonum framar. „Verkefnin eru ótrúlega fjölbreytt og skemmtileg. Hvort sem það voru námsmenn, listamenn, hönnuðir, íbúar eða rekstraraðilar sem sóttu um styrk, þá eiga þeir allir það sameiginlegt að hafa einlægan áhuga á að efla miðborgina okkar og gera hana að betri stað til að búa á og ferðast um. Það á eftir að vera virkilega erfitt að velja úr hvaða verkefni hljóta styrk en vonandi getum við komið til móts við sem flesta“.

Verið er að vinna úr umsóknum og innan tíðar verður ljóst hvaða verkefni hljóta styrk úr sjóðnum.