Tími fyrir sögu - lestrarhátíð hafin

Skóli og frístund Mannlíf

""

Lestrarhátíð í Bókmenntaborg var sett í morgun á Blómatorginu í Kringlunni. Þetta er í þriðja sinn sem hátiðin er haldin og allan mánuðinn verður boðið upp á fjölbreytta og lifandi dagskrá. Hátíðin í ár nefnist Tími fyrir sögu og er hún tileinkuð smásögum og örsögum og þeirri list að skrifa sögur.

Borgarstjórinn í Reykjavík Dagur B. Eggertsson  settti hátíðina í morgun. Lestrarhátíð í ár er tileinkuð sögum og sem fyrr er borgin í sviðsljósinu. Hátíðin er nefnd Tími fyrir sögu til að koma þeim skilaboðum á framfæri að oftast er tími fyrir sögu. Hann þarf ekki að vera langur, mögulega bara ferðin upp rúllustigann í Kringlunni. En tímanum er vel varið ef við náum sögu í leiðinni.

Sögur birtast í ólíkum formum og gerðum í október. Sögur munu lýsa upp haustmyrkrið, gleðja okkur í Kringlunni eða heilla í heita pottinum. Skólarnir munu iða af sögum í október og eitthvað ferðast sögur á milli þeirra. Jafnvel verður hægt að hlýða á örsögur þegar hringt er í þjónustuver Reykjavíkurborgar því skáldin Kristín Ómarsdóttir og Óskar Árni Óskarsson hafa lesið upp nokkrar af sögum sínum sem hægt verður að hlusta á þegar beðið er eftir svari þjónustufulltrúa. Allir geta síðan kíkt í Nestisboxið á vef Bókmenntaborgarinnar þar sem ein ljúffeng saga verður birt á hverjum degi októbermánaðar, nógu stutt til að hægt sé að njóta í matartímanum.

Í tilefni hátíðarinnar kemur út nýtt smásagnasafn Eins og Reykjavík ení því eru 26 sögur eftir ólíka höfunda sem allar tengjast Reykjavík á einhvern hátt og valdar hafa verið af Þórarni Eldjárn. Eins og Reykjavík er gefið út af eBókum og geta lesendur nælt sér í frítt eintak til 15. október á vef eBóka. Við setningu hátíðarinnar í morgun las Ari Eldjárn lesa upp úr smásagnasafninu og sagði meðal annars frá því hversu hugfanginn hann var af myndböndum og vildi heldur horfa á myndbönd en lesa.

Reykjavíkurdætur tóku lagið í Kringlunni af sinni alkunnu snilld og gestir verslunarmiðstöðvarinnar geta líka notið þess að ganga um Kringluna og lesa örsögur sér til ánægju.

All Change Festival, ritsmiðjur, Páfugl út í mýri og svo margt fleira

Öll dagskrá hátíðarinnar verður aðgengileg á vef Bókmenntaborgarinnar bokmenntir.is  Meðal áhugaverðra atriða má nefna að í samstarfi við RIFF verður hægt að horfa á sögur í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni þar sem verðlaunaðar stuttmyndir verða sýndar og hægt verður að heyra leikstjórana ræða verkin í pottinum. Börnum verður boðið á námskeið í gerð einnar mínútu mynda í samstarfi við RIFF og málþing um sögur sem verða að kvikmyndum verður haldið í byrjun mánaðarins.

Í Andrými Bókmenntaborgarinnar sem haldið verður í Tjarnarbíói þann 8. október fjallar Þórarinn Eldjárn um smásagnasafnið Eins og Reykjavík og ræðir hvaða þráður bindur sögurnar í ritinu saman.

Landsleiknum Allir lesa verður ýtt úr vör 10. október og mun hann enn frekar minna okkur á að október er lestrarmánuður. Bókmenntaborgin hvetur alla til að taka þátt í leiknum og mynda lið og skrá lestur sinn.

Börnin fá að venju sitt á Lestrarhátíð í ár og verður Vatnsmýrin iðandi af lífi frá 4. október þegar sýningin Páfugl út í mýri opnar í tengslum við Barnabókahátíðina Mýrina. Páfuglinn breiðir út sitt litskrúðuga stél og sýnir fjölbreytt og spennandi safn barnabóka frá öllum Norðurlöndunum. Sýningin, sem er nýstárlegt ævintýraland sem má snerta og skoða, er sköpuð af þeim Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur myndlistarmanni og Davíð Stefánssyni skáldi í samstarfi við Norræna húsið. Sýning er öllum opin og aðgangur ókeypis.

Rithöfundasambandið býður skólum upp á heimsóknir skáldanna Davíðs Stefánssonar og Bryndísar Björgvinsdóttur í gegnum verkefnið Skáld í skólum  og munu þau ræða hvernig saga kviknar. Borgarbókasafnið í samvinnu við Vodafone verður með SMS keppni á meðan Lestrarhátíð stendru og hvetur krakka á aldrinum 10- 16 til að senda 33 örsögur í númerið 901-0500. Verðlaun vera veitt fyrir skemmtilegustu sögurnar.

Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt í hátíðinni með því að mæta á viðburði, halda sjálfir viðburði, nota myllumerkið (hashtag) #lestrarhatid14,setja inn örsögur, uppáhalds tilvitnanir  ljóðlínur eða mínútumyndir á samfélagsvefina Facebook, Twitter og Instagram. Úrval þess efnis verður síðan birt á vef Bókmenntaborgarinnar, bokmenntir.is.

Nánari upplýsingar má nálgast á www.bokmenntir.is