Tillögur að nýjum Reykjavíkurhúsum í Vesturbugt og Kirkjusandi

Skipulagsmál Framkvæmdir

""

Borgarráð fjallaði í morgun um skýrslu starfshóps um Nýju Reykjavíkurhúsin sem ætlunin er að rísi m.a. í Vesturbugt og á Kirkjusandi.  Gert er ráð fyrir margbreytileika og hagstæðri félagslegri blöndun á báðum þessum byggingarreitum. Reykjavíkurborg  stefnir að því að hluti húsnæðisins sem rís á reitunum verði félagslegt og að minnsta kosti 80 íbúðir í Vesturbugt muni rísa eftir hugmyndum um nýju Reykjavíkurhúsin.  

Fyrir borgarráð voru lagðar tillögur um hvernig staðið verði að úthlutuninni en gert er ráð fyrir samstarfi við einkaaðila við uppbygginguna, auk félaga sem reka leigu- og búseturéttarhúsnæði. Auglýst verður sérstaklega eftir samstarfsaðilum í því skyni. Borgarráð mun taka afstöðu til tillagnanna á næsta fundi sínum. 

Í Vesturbugt við gömlu höfnina er gert ráð fyrir að byggist upp 24 þúsund fermetrar af mannvirkjum á mjög eftirsóttum lóðum. Samkvæmt nýjum drögum að deiliskipulagi fyrir reitinn verða byggðar 165 íbúðir á reitnum sem skiptast í útsýnisíbúðir, almennar íbúðir og raðhús auk leikskóla. Af þessum íbúðum eru að minnsta kosti 80 íbúðir á vegum Félagsbústaða og samstarfsaðila undir merkjum Reykjavíkurhúsa en meðalflatarmál íbúða í Vesturbugt með geymslu verður 78 fermetrar. Á Kirkjusandsreitnum er gert ráð fyrir um á annað hundrað íbúðum undir merkjum Reykjavíkurhúsa.

Starfshópurinn hefur skilað greinargóðri skýrslu um hvernig tryggja megi hagstæða félagslega blöndun á svæðinu en í henni segir að „hugmyndir um margbreytileika í íbúasamsetningum byggja á kenningum um félagsauð og gildi hans í samfélögum. Félagsauður er talinn hafa margs konar jákvæð áhrif bæði á líf einstaklinga og velferð samfélaga.“

Um leið og útboðskilmálar hafa verið samþykktir verður auglýst eftir samstarfsaðilum en gera má ráð fyrir því um miðjan apríl. 

Nýju Reykjavíkurhúsin - skýrsla starfshóps.