"Það er svo margt sem þú getur gert - ekki gleyma"

Menning og listir Skóli og frístund

""

1.600 börn úr fjórða bekk grunnskólanna í borginni tóku þátt í glæsilegri setningarhátíð Barnamenningarhátíð í Hörpa dag þar sem frumflutt var lag sem þau gerðu í samstarfi við Sölku Sól. 

Eldborgarsalurinn í Hörpu logaði af gleði, söng og dansi við opnunarhátíðina sem náði hámarki þegar Salka Sól steig á svið og flutti lag Barnamenningarhátíð 2017, Ekki gleyma, sem fjallar um sameiginlega ábyrgð okkar allra á að passa upp á umhverfið.

Börnin unnu verkefni í skólunum sem fólst í að svara spurningunni Hvað getum við gert til að vernda jörðina? Hugmyndir þeirra urðu síðan að innleggi í lagið hennar Sölku Sólar.  

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti hátíðina sem standa mun út alla þessa viku með því að telja niður með troðfullum Eldborgarsalnum. Því næst steig lúðrasveit á svið, sýnt var atriði úr Bláa hnettinum, rapparinn Ljúfur Ljúfur flutti Orðbragðslagið og danshópar sýndu hipp-hopp dans. Leynigestur setningarhátíðinnar var svo MC Gauti sem söng með öllum salnum Reykjavík er okkar og ætlaði þá þakið að rifna af Hörpu. 

Eftir hádegið stigu svo 700 leikskólabörn í borginni á svið og sungu inn Barnamenningarhátíð með lögum eftir Ólaf Hauk Símonarson. Dagskráin með leikskólabörnunum bar yfirheitið Eniga Meniga og var á vegum Tónskóla Sigursveins. Börnin sungu öll vinsælustu lög Ólafs Hauks undir hljóðfæraleik hljómsveitar skólans. 

Dagskrá Barnamenningarhátíðar er afar fjölbreytt í ár og má þar nefna hæfileikakeppnina Reykjavík hefur hæfileika sem verður haldin í Austurbæjabíó á morgun 26. apríl kl 19.30-22. Ráðhúsið breytist í  Ævintýrahöll helgina 29.-30. apríl en þar verður m.a. hægt að stunda fjölskyldujóga og sjá sýningu með Sirkusi Íslands, hlusta á jazz og dansa við taktfasta tónlist. Menningarstofnanir borgarinnar eru stór hluti af Barnamenningarhátíð og frítt er inná Reykjavíkursöfnin fyrir fullorðna í fylgd með börnum meðan á hátíðinni stendur.

Í Borgarbókasafni verður m.a. hægt að taka þátt í sendibréfasmiðju og grímuleikum og í Borgarsögusafni verður hægt að fræðast um húsdýr víkinganna og kynnast verum himins og hafs. Á Listasafni Reykjavíkur verður m.a. hægt að fara á teikninámskeið, listsmiðjur og spunanámskeið.

Hægt verður að fylgjast með viðburðum hátíðarinnar næstu sex daga á KrakkaRÚV þar sem ungir fréttamenn úr 8.-10. bekk sinna fréttamiðlun. Um er að ræða samstarf hátíðarinnar og KrakkaRÚV.