Teljarar sýna vinsældir samgönguhjólreiða

Samgöngur

""

Nýverið voru settir upp þrír teljarar sem mæla fjölda ferða hjólandi og gangandi á völdum stöðum. Áætlað er að setja upp fleiri víða um borgina og safna gögnum, m.a. um vaxandi samgönguhjólreiðar. 

Þrír sjálfvirkir teljarar sem telja gangandi og hjólandi vegfarendur hafa verið settir upp á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. Þeir standa við Nauthólsvík, Elliðaárdal og Geirsnef.

„Talningin vekur strax athygli fyrir góðan fjölda og sýnir dagsveiflan að samgönguhjólreiðar skipta miklu máli,“ segir Þorsteinn R. Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkurborgar. Stefnt er að því að fljótlega verði hægt að birta ítarlegar upplýsingar úr teljurunum á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Teljarar mældu allan ágústmánuð og eru niðurstöðurnar eftirfarandi þegar talið er í báðar áttir. Þar kemur m.a. fram að yfir 30. þúsund ferðir á hjóli mældust á stígnum í Nauthólsvík:

  • 19,049 ferðir á hjóli um Fossvoginn í og úr Elliðaárdal og 10,497 voru á tveimur jafnfljótum, flestir hjólandi á miðvikudögum. 
  • 13,240 ferðir á hjóli yfir hjólabrýrnar á Geirsnefi og 3,976 fóru gangandi, flestir hjólandi á fimmtudögum.
  • 31,413 ferðir á hjóli á stígnum í Nauthólsvík og 13,381 á gangstígnum, flestir hjólandi á miðvikudögum.

Ætlunin er að setja upp teljara á mörgum öðrum völdum stöðum í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurstöður talninga sem fyrir liggja eru jákvæðar og í samræmi við stefnu Reykjavíkur­borgar um að efla vistvæna ferða­máta en það er megin­markmið Hjól­reiða­áætlunar 2015–2020 að auka hlut­deild hjól­reiða í öllum ferðum í borginni.

Hjólreiðar og aðrir vistvænir ferðamátar hafa án vafa góð áhrif á umhverfi, lýð­heilsu og lífs­gæði og stuðla að betri borg. Þær draga einnig úr þörf á miklum umferðarmannvirkjum undir bifreiðar. Hlutdeild hjólandi í öllum ferðum í Reykja­vík var 5,5% samkvæmt ferða­venju­könnun sem gerð var í Reykja­vík árið 2014 en búast má við að sú tala hafi hækkað. Tölur úr nýju teljurunum benda til þess. Næsta ferðavenjukönnun verður gerð í október og nóvember.

Tenglar

Talninar - samantekt

Hjólaborgin Reykjavík