Sýningaropnun – Tak i lige måde: Samtímalist frá Danmörku

Mannlíf Menning og listir

""

Fjórir valinkunnir danskir myndlistarmenn eiga verk á sýningunni Tak i lige måde: Samtímalist frá Danmörku sem verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi föstudagskvöldið 23. febrúar kl. 20.00. Listamennirnir eru Jeannette Ehlers, Jesper Just, John Kørner og Tinne Zenner.

Fjórir valinkunnir danskir myndlistarmenn eiga verk á sýningunni Tak i lige måde: Samtímalist frá Danmörku sem verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi föstudagskvöldið 23. febrúar kl. 20.00. Listamennirnir eru Jeannette Ehlers, Jesper Just, John Kørner og Tinne Zenner.

Jesper Just verður viðstaddur og mun ræða við Markús Þór Andrésson, sýningarstjóra, í Hafnarhúsinu kl. 21.00 um sýninguna og eigin verk.

Í ár eru 100 ár liðin frá því að Ísland hlaut fullveldi. Listasafn Reykjavíkur minnist þessara tímamóta með því að bjóða fjórum samtímalistamönnum frá Danmörku að sýna í safninu. Mikil gerjun á sér stað í danskri myndlist, ekki síst í ljósi breyttrar heimsmyndar í pólitísku og samfélagslegu tilliti.

Þessi fyrrum herraþjóð Íslendinga á sér langa sögu sem nýlenduveldi og heyra Grænland og Færeyjar enn undir konungsríkið. Þá er Danmörk í dag fjölmenningarsamfélag. Margir danskir listamenn endurspegla í verkum sínum þessa þætti í sögu þjóðarinnar og samtíma. Viðfangsefni þeirra tengjast meðal annars hugmyndum um síð-nýlendustefnu, fólksflutninga, sjálfsmynd þjóða og landamæri.

Ný verk Tinne og Jespers ásamt öðrum verkum á sýningunni Tak i lige måde ávarpa þessi knýjandi málefni. Listamennirnir vísa í eigin reynsluheim og fjölskyldusögu eða takast á hendur heimildavinnu, ferðalög og rannsóknir.

Mette Kjuel Nielsen, sendiherra Danmerkur á Íslandi opnar sýninguna.  
Boðið verður upp á leiðsagnir og kvikmyndasýningar samhliða sýningunni.