Sýningaropnun: Cory Arcangel í Hafnarhúsinu laugardaginn 31. janúar

Mannlíf Menning og listir

""

Sýningin Margt smálegt eftir bandaríska listamanninn Cory Arcangel verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, laugardaginn 31. janúar klukkan 16 að viðstöddum listamanninum. Sýningarstjóri er  Michael Bank Christoffersen en sýningin er unnin í samstarfi við HEART – Herning listasafnið í Danmörku.

Cory Arcangel (f. 1978) hefur þrátt fyrir ungan aldur þegar skapað sér nafn í listaheiminum sem frumkvöðull sem leiðir saman stafræna tækni og list. Hann gerir teikningar, skúlptúra, ljósmyndir og myndbandsverk á stafrænu formi en hefur jafnframt vakið mikla athygli fyrir að breyta tölvuleikjum með því að hakka sig inn í tölvukóða. Cory finnur vissa fegurð í tækni sem eitt sinn var í fremstu röð en er nú orðin úreld.
 
Á sýningunni Margt smálegt eru bæði ný verk eftir listamanninn og úrval eldri verka sem hann hefur sérstaklega endurunnið fyrir sýninguna. Verkin eru hönnuð í samhengi við t.d. sýningarrýmið, kvikmynd, gjörning, vefinn og gjafaverslunina. Arcangel vinnur verkin í mismunandi miðla en á sýningunni má m.a. sjá sundnúðlur úr frauði skreyttar textílefnum og rafteindatækjum, flatskjái sem sýna gamaldags myndáhrif frá vefnum, myndbandsverk knúið áfram af breyttum leikjatölvufjarstýringum og píanóverk í anda naumhyggju.
Cory notar allt frá nýjustu til einföldustu tækni í verkum sínum þannig að skilin á milli dægurmenningar og listarinnar verða óljós. Verkin á sýningunni eru sett fram á nýstárlegan og óvenjulegan hátt en mörg þeirra byggjast á myndböndum og tölvukóðum. Með því að krukka í og breyta bæði gamalli og nútímatækni skapar hann verk sem kallast á við naumhyggju og Fluxus. Verkin sýna m.a. hið flókna og síbreytilega samband sem við sem neytendur og manneskjur eigum við þau tól og tæki og gögn sem gegnsýra skjái okkar og hversdaginn.
 
Cory Arcangel hefur notið mikillar velgengni og virðingar víða um heim og haldið fjölda sýninga í galleríum og þekktum söfnum eins og Carnegie Museum of Art, New Museum of Contemporary Art, Whitney Museum of American Art, Barbican og MoCA í Miami. Verk hans má finna í safneignum MoMA, Smithsonian og Tate. Hann er einnig á mála hjá Team gallerýinu í New York, Lisson gallerý í London og Thaddaeus Ropac gallerí í París og Salzburg.
Sýningin stendur til 12. apríl 2015.
 
The Obel Family Foundation styrkti sýninguna í Danmörku.