Sumarsólstöðuganga í Viðey

Íþróttir og útivist Menning og listir

""

Miðvikudaginn 21. júní verður farið í hina margrómuðu sólstöðugöngu í Viðey, en þetta verður sjöunda árið í röð sem gangan fer fram í Viðey.

Þór Jakobsson veðurfræðingur og einn af upphafsmönnum þessarar göngu mun segja frá sólstöðum, sólstöðumínútunni, hátíðum og hefðum í tengslum við sólstöður. Í ár mun Árný Helgadóttir kraftgöngukona stýra léttum æfingum og gefa heilræði um heilbrigt og innihaldsríkt líferni.

Pétur Húni Björnsson þjóðfræðingur og söngvari mun segja skemmtilegar og fróðlegar sögur tengdar sólstöðum.

Gengið verður um sögulegar slóðir á austurhluta Viðeyjar og staðnæmast í fjöruborðinu við varðeld og en þar mun söngvarinn Jón Svavar Jósefsson leiða fjöldasöng og spila undir á harmónikku og gítar. Gestir eru hvattir til að taka með sér nesti til að gæða sér á við varðeldinn.

Gönguleiðin er hæfileg en mælt er með góðum skóm og skjólgóðum jakka.

Siglt verður frá Skarfabakka kl. 20:00 og til baka ekki seinna en 23.00.

Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.500 kr. fyrir fullorðna, 1.350 kr. fyrir eldri borgara og 750 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.

Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins sigla frítt.