Styttri vinnuvika – bætt líðan og aukin starfsánægja

Velferð Skóli og frístund

""
Málþing á vegum Reykjavíkurborgar og BSRB fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag undir yfirskriftinni Styttri vinnuvika – fjarlægur draumur eða það sem koma skal. Þar voru kynntar helstu niðurstöður tilraunaverkefnis hjá Reykjavíkurborg um styttri vinnuviku án þess að skerða laun.  
Tilraunaverkefnið hófst í mars í fyrra og var skipaður starfshópur, til að útfæra verkefnið, og voru valdir heppilegir vinnustaðir í tilraunina. Tilraunaverkefninu er nú lokið og niðurstöður liggja fyrir og verða þær kynntar á málþinginu sem nú stendur yfir. Fylgjast má með málþinginu í beinni útsendingu á netsamfelag.is.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að atvinnuþátttaka hérlendis er mest allra landa í Evrópu, 81,7% meðal fólks á aldrinum 15-64 ára. Íslendingar eru með fjórðu lengstu vinnuviku í Evrópu og hlutfall fólks sem vinnur lengri vinnuviku en 50 tíma er þriðja hæst í Evrópu. Verg landframleiðsla á Íslandi er ekki í neinu samræmi við lengd vinnuvikunnar. Þessar upplýsingar, ásamt rannsóknum um að of löng vinnuvika geti beinlínis haft skaðleg áhrif á heilsu, var tilefni til þess að kanna hvort stytting vinnuvikunnar á Íslandi geti haft jákvæð áhrif á samfélag og atvinnulíf.
 
Tilraunaverkefnið fór fram á tveimur vinnustöðum, Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Barnavernd Reykjavíkur. Þjónustumiðstöðin lokar klukkustund fyrr á hverjum degi, þar sem vinnuvikan er stytt í 35 klst., en hjá Barnavernd í 36 klst. þar sem lokað er á hádegi á föstudögum. Umtalsverð eftirfylgni var með verkefninu, reglulegar kannanir voru framkvæmdar, bæði meðal starfsfólks og þjónustuþega, og fylgst var með hreyfingum í málaskrá, yfirvinnu og veikindafjarvistum. Auk þess voru tekin eigindleg viðtöl við þátttakendur í verkefninu af háskólanemum í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.
 
Niðurstöður benda til jákvæðra áhrifa verkefnisins. Andleg líðan, líkamleg líðan og starfsánægja mælist marktækt meiri á tilraunavinnustöðunum en samanburðarstaðnum á meðan engin munur mælist á viðhorfi til þjónustu eða opnunartíma. Langtímaveikindi lækka á tilraunavinnustöðunum en ekki á samanburðarstaðnum og engar breytingar er að merkja á hreyfingum í málaskrá hjá Barnavernd. Vísbending er um að sérfræðiþjónusta skóla á Þjónustumiðstöð Árbæjar og Breiðholts vinni heldur færri mál, en það kann að skýrast af því að mál eru unnin meira á dýptina en áður en ekki endilega vegna styttingar vinnuvikunnar. Yfirvinna eykst hjá Barnavernd vegna bakvakta á föstudögum en ekki að öðru leyti. Hjá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts eykst unnin yfirvinna úr 5,9 klst. í 8,9 klst. Það er þó innan fastlaunasamninga, svo launakostnaður eykst ekki. Eigindleg viðtöl við þátttakendur í verkefninu komu sömuleiðis vel út. Almennt virðist starfsfólk hafa aðlagast verkefninu vel og ánægja ríkir með fyrirkomulagið.
 
Það er mat stýrihópsins að niðurstöðurnar séu almennt jákvæðar og það sé vel þess virði að halda áfram með frekari tilraunir á þessu sviði. Brýnt er að afla frekari gagna á tilraunastöðunum tveimur, mæla áhrif til lengri tíma, enda hætta á að langtímaáhrif kunni að vera önnur en þau sem mælast eftir eitt ár. Því er lagt til að haldið verði áfram á tilraunastöðunum tveimur í að minnsta kosti ár til viðbótar. Á sama tíma er lagt til að farið verði í fleiri tilraunaverkefni, þar sem áhrifin verði könnuð á fleiri sviðum og aðra starfsmannahópa. Æskilegt væri að í það veldust starfsstaðir með jafnara kynjahlutfall en nú er eða jafnvel fleiri körlum en konum og dreifðust á sem flest fagsvið borgarinnar.
 
Jafnframt er lagt til að farið verði í samstarf við háskólasamfélagið um frekari rannsóknir, að áhrif verkefnisins á heimilishald og fjölskylduaðstæður verði könnuð sem og viðhorf aðstandenda starfsfólks ef mögulegt er. Að auki verði óskað eftir samstarfi við starfshóp ríkisstjórnarinnar um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar sem senn hefur störf. Á næstu vikum mun stýrihópurinn leggja fram tillögur að næstu skrefum til borgarráðs, um nýja vinnustaði og frekari rannsóknir. Gert er ráð fyrir að hægt verði að setja verkefnið af stað á þeim með haustinu og að stýrihópurinn haldi áfram að fylgjast með og þróa verkefnið í umboði borgarráðs.