Styrkir hækka til nemenda Fjölsmiðjunnar

Velferð

""

Borgarráð hefur samþykkt að hækka þjálfunarstyrki nema hjá Fjölsmiðjunni um helming. Fjölsmiðjan er vinnusetur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára sem hefur flosnað upp úr námi eða hefur ekki  náð fótfestu á vinnumarkaði. Viðvera nema er virka daga frá 8.30-15. 

Lögð er áhersla á að þeir nemar sem starfa í Fjölsmiðjunni  fari þaðan sem sterkari einstaklingar; félagslega, námslega og hæfari til að taka þátt í almennum vinnumarkaði.  Á síðasta ári fór  yfir helmingur nemenda Fjölsmiðjunnar í nám eða vinnu þegar þau luku veru sinni í smiðjunni.

Árið 2018 fá nemendur á aldrinum 16-17 ára greitt sem nemur 55% hlutfall launa, eða 131.635 krónur á mánuði (hækkun um u.þ.b. 47.600kr á mánuði eða 57%) en nemendur 18 ára og eldri fá sem nemur 75% hlutfall launa, eða 179.502 krónur á mánuði (hækkun um u.þ.b.58.200kr á mánuði eða 48%). Upphæðir taka mið af kjarasamningi Eflingar við Samband íslenskra sveitarfélaga, launaflokki 115. Framlag borgarinnar til Fjölsmðjunnar hækkar um 51% eða 16 milljónir króna.

Reykjavíkurborg ásamt Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu endurnýjaði í lok október samning við Fjölsmiðjuna til þriggja ára.  Fjölsmiðjan er sjálfseignarstofnun sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, Atvinnuleysistryggingarsjóður og menntamálaráðuneytið leggja henni til rekstrarfé.

Til stendur að kanna afdrif eldri nemenda til að fá skýrari mynd af árangri Fjölsmiðjunnar og einnig á að vinna að stefnumótun og aðgerðaráætlun sem tryggir enn markvissara starf og skarpari framtíðarsýn.  Unnið er með nemum á þeirra forsendum og leitast við að uppfylla þarfir og óskir þeirra eins og þau upplifa starfið.

www.fjolsmidjan.is