Stutt við skóla sem bæta tónlistarnemum upp kennslutíma

Skóli og frístund Menning og listir

""

Reykjavíkurborg vill freista þess, í samvinnu við tónlistarskóla, að bæta nemendum upp þann kennslutíma sem þeir misstu í nýafstöðnu verkfalli tónlistarkennara. 

Borgarráð hefur samþykkt að framlög til tónlistarskólanna verði óbreytt um næstu mánaðamót, þ.e. að framlagið verði ekki skert vegna verkfallsins. Sviðið mun semja við hvern tónlistarskóla um hvernig bæta megi nemendum upp þá kennslu sem þeir misstu af í verkfallinu.

Unnið verður að því fram til 20. desember að uppreikna þjónustusamninga skólanna við borgina með tilliti til samþykktra kjarasamninga og á grundvelli þeirra gagna sem skólarnir leggja fram. Uppgjör við skólana vegna kennslumagns og uppbótartíma verður gert í lok skólaársins, m.a. að teknu tilliti til fjölda nemenda sem fengu uppbótarkennslu á vormisserinu.

Þjónustusamningar Reykjavíkurborgar við tónlistarskólana renna út í júlílok á næsta ári. Undirbúningur nýrra samninga fer fram á vormisserinu.