Strákústar að gjöf til verslunarmanna á Laugavegi

Umhverfi Mannlíf

""

Kaupmenn við Laugaveg fengu óvæntan glaðning í morgun frá Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg. Gjöfin var strákústur sem kemur að góðum notum við að hreinsa í kringum fyrirtækin á verslunargötunni. 

Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg keyptu kústana til þess að hvetja til vitundarvakningar um betri umgengni við Laugaveginn. Það voru þeir Gunnar Guðjónsson, gleraugnakaupmaður í Gleraugnamiðstöðinni og formaður Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg og Björn Jón Bragason framkvæmdastjóri samtakanna sem afhentu kústana í morgun. Alls voru þeir með 100 kústa sem verslunareigendur fengu að gjöf. 

Í bréfi sem fylgdi strákústunum voru kaupmennirnir hvattir til að sýna gott fordæmi í umhirðu borgarinnar. Það sé til mikils að vinna að fegra borgina og endurvekja gamla slagorðið „hrein torg – fögur borg“. Snyrtilegra umhverfi auki lífsgæði allra.

Til að auðvelda flutninginn á kústunum fengu samtökin lánaðar þrjár bláar tunnur frá sorphirðu Reykjavíkurborgar og var þeim trillað niður Laugaveginn með glaðninginn.