Stofnun starfshóps um örugga miðborg

Framkvæmdir Velferð

""

Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að stofna starfshóp sem hefur það hlutverk að gera miðborg Reykjavíkur örugga fyrir íbúa og alla sem hana heimsækja.

Reykjavíkurborg skrifaði undir samkomulag í desember 2016 við Samtök ferðaþjónustu (SAF), fyrir hönd skemmtistaða í Reykjavík, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) um sameiginlegan vilja aðila um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði í Reykjavík. 

Með stofnun starfshópsins verður unnið að áætlun um framkvæmd samkomulagsins um örugga skemmtistaði. Þá snýr verkefni hópsins einnig að öruggum borgum (e. Safe Cities) sem Reykjavíkurborg er aðili að og stofnað var til af  UNIFEM.

Helstu verkefni hópsins felast í;

• Að stuðla að góðum samskiptum við lögreglu, slökkvilið og skemmtistaði. Reykjavíkurborg tilnefnir tengiliði frá þeim sviðum sem að málinu koma.

• Að Reykjavíkurborg, í samvinnu við lögreglu, setji upp eftirlitsmyndavélar í miðborginni og tryggi góða lýsingu þar sem þörf krefur utandyra, eftir atvikum samkvæmt ábendingum lögreglu og/eða skemmtistaða.
• Að útbúa og afhenda merki til skemmtistaða sem sýnir að þeir hafi staðist kröfur sem settar eru á forsendur þessa samkomulags.
• Að útbúa og afhenda upphandleggsarmband fyrir dyraverði skemmtistaða sem sýnir að staðirnir hafi staðist kröfur sem settar eru á forsendum þessa samkomulag.

Auk þess á vinnuhópurinn að vinna áætlun með hvaða hætti Reykjavíkurborg mun til ársins 2020:
• Auka lýsingu á ákveðnum svæðum í borginni til að tryggja öryggi.
• Koma upp öryggismyndavélum í takt við þróun borgarinnar sérstaklega með tilliti til svæða þar sem skemmtanahald er.

Við gerð áætlunarinnar leiti starfshópurinn ráðgjafar innan og utan borgarkerfis hjá aðilum með sérþekkingu á viðfangsefninu.

Kaup á öryggismyndavélum
Þá var ennfremur samþykkt að verja fjórum milljónum króna til kaupa á öryggismyndavélum í miðborgina og fleiri staði.
Árið 2012 voru keyptar 12 vélar og eru fjórar þeirra nú óvirkar. Síðan voru keyptar 18 vélar 2014. Nú er fyrirhugað að kaupa fjórar vélar í stað þeirra sem eru óvirkar, skipta út 11 vélum frá 2014 fyrir nýrri vélar og kaupa fjórar vélar sem geta lesið númeraplötur bíla. Alls er kostnaður við kaup á vélunum áætlaður fjórar m.kr og rúmast fjárfestingin innan gildandi fjárfestingaáætlunar.

Samhliða þessu er lagt fram nýtt samstarfssamkomulag um verkaskiptingu Reykjavíkurborgar, Neyðarlínunnar og Lögreglunnar í Reykjavík um endurnýjun öryggismyndavéla í miðborginni og rekstur kerfisins.

Neyðarlínan hefur séð um að flytja merkið frá vélum í fjarskiptamiðstöð lögreglunnar í Skógarhlíð og sjá um viðhald og rekstur þess. Lögreglan sér um að geyma gögnin og jafnframt nýtir hún sér vélarnar til löggæslustarfa í borginni.  Neyðalínan tekur nú að sér að afla samþykkis húseigenda þar sem það á við í stað Reykjavíkurborgar.