Starfsfólk sorphirðunnar vinnur um helgina

Umhverfi

""

Mikið álag er á starfsfólki sorphirðunnar í Reykjavík þessa vikuna vegna mikillar snjókomu um síðustu helgi. Vegna erfiðrar færðar hefur hirðu seinkað um tvo daga. Íbúar eru vinsamlega beðnir um að moka vel frá sorpílátum og huga að aðgengi að sorpgeymslum svo sorphirða geti gengið vel og áfallalaust fyrir sig. 

Vegna seinkunar á hirðu vegna erfiðrar færðar í borginni mun starfsfólk sorphirðunnar í Reykjavík vinna á morgun, laugardag. 

Sorphirðan er núna tveimur dögum á eftir áætlun. Í dag er unnið að hirðu í Hlíðum og Háaleiti. Á morgun, laugardag, verður unnið að losun í Háaleiti og Teigum. Á mánudaginn er áætlað að hirða sorp í Bústaðahverfi. Íbúar eru vinsamlega beðnir um að auðvelda starfsfólki sorphirðunnar störf. Það er best gert með því að moka allan snjó frá sorpílátunum og hálkuverja þar sem þess er þörf. Sums staðar eru tunnurnar eins og steyptar niður í snjó þar sem ekki hefur verið mokað frá. Slíkt tefur hirðuna mikið. Vinnum saman svo sorphirðan geti unnið sín störf snurðulaust.
Svo er um að gera að flokka endurvinnsluefnin vel frá, þ.e. plast, pappír og gler og fara með á endurvinnslustöðvar Sorpu og eða á grenndarstöðvarnar. Það léttir á í erfiðu færi.