Starfsfólk í skóla- og frístundastarfi er stolt af vinnustað sínum

Skóli og frístund

""

Samkvæmt viðhorfskönnun meðal starfsfólks skóla- og frístundasviðs frá í vor finnst flestum vinnustaðurinn þeirra hafa góða ímynd og eru stoltir af honum. Þá benda niðurstöður til þess að starfsmenn séu í heildina á litið ánægðir í starfi og líði vel í vinnunni. Starfsfólk hjá skóla- og frístundasviði telur sig einnig búa við starfsöryggi og upplifa sveigjanleika til að samræma starf og einkalíf. 

Niðurstöður viðhorfskönnunar sýna að fleira starfsfólki skóla- og frístundasviðs finnst ímynd vinnustaðarins góð samanborið við sambærilega könnun sem gerð var fyrir tveimur árum. 86% starfsfólks finnst vinnustaðurinn hafa góða ímynd og 88,5% er stolt af vinnustaðnum sínum.

Ánægja með starfsanda eykst einnig milli ára, nær 88% starfsfólks finnst samstarfsfólkið miðla þekkingu sinni í meiri mæli en áður og að samvinna á vinnustaðnum sé góð. Þá benda niðurstöður könnunarinnar til þess að starfsmenn séu í heildina á litið ánægðir í starfi, eða 85,6% þeirra, og líði vel í vinnunni, eða 87,0%. 85,7% starfsfólks sviðsins telur sig búa við starfsöryggi og átta af hverjum tíu starfsmönnum telja sig hafa sveigjanleika til að samræma starf og einkalíf.

Könnunin náði til 3.214 starfsmanna á skóla- og frístundasviði og var svarhlutfallið 66%.

Nýleg könnun meðal foreldra leikskólabarna sýnir jafnframt að 98% foreldra telja að barninu þeirra líði vel í leikskólastarfinu og að barnið þeirra sé þar öruggt. Þá finnst 87% foreldra góður aðbúnaður í leikskólanum og níu af hverjum tíu foreldrum finnst þeir fá góðar upplýsingar um leikskólastarfið. Um 86% foreldra telja að barnið sé ánægt með matinn og 82% þeirra eru sjálfir ánægðir með þann mat sem barnið þeirra fær í leikskólanum. Sjá könnunina. 

Starfsstaðir skóla og frístundasviðs eru um 170; leikskólar, grunnskólar, frístundamiðstöðvar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, skólahljómsveitir, Námsflokkar Reykjavíkur og skrifstofa sviðsins.