Stærsta náttúrusýning landsins í Perlunni

Umhverfi Framkvæmdir

""
Borgarstjórinn í Reykjavík undirritaði í dag samning við Perlu norðursins um leigu á Perlunni undir stærstu náttúrusýningu landsins. Gestir verða virkir þátttakendur í sýningunni þar sem lögð verður áhersla á fræðslu, skemmtun og upplifun. 
 
Sýning af þessari stærðargráðu hefur ekki verið sett upp á Íslandi áður. Fyrsta stjörnuver Íslands (e. planetarium) verður sett upp, en þar verður meðal annars hægt að upplifa norðurljós og íslenska náttúru í háskerpu upplausn. Einnig verður byggður manngerður íshellir sem gestum gefst kostur á að ganga í gegnum, anda að sér kalda loftinu og fræðast um samspil jökla og manns. Útsýnispallarnir verða nýttir í fræðslu um nærumhverfi Perlunnar í nútíð og fortíð.
 
„Þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða. Það hefur ríkt ákveðinn óvissa um hvernig best væri að nýta Perluna en vilji borarinnar hefur verið að hér verði sýning um náttúru Íslands. Með þessum samningi verður það að veruleika og á eftir að draga fólk að, bæði Íslendinga og ferðamenn. Perlan mun þannig gegna mikilvægu hlutverki í borgarlífnu,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Það er skynsamlega staðið að þessu verkefni. Þrír hópar, sem hver um sig hafði frambærilega hugmynd um not fyrir Perluna, tóku höndum saman og fyrir vikið varð verkefnið miklu sterkara. Þetta sýnir okkur að samtakamátturinn er mikilvægur og okkur vegnar betur þegar við vinnum saman að verkefnum, en ekki gegn hvort öðru, nokkuð sem er mikilvæg lexía í því ástandi sem ríkir nú í samfélaginu.“
 
Markmið sýningarinnar er að fræða innlenda og erlenda gesti um magnaða náttúru Íslands og lögð verður áhersla á að tengja fræðin við sögur Íslendinga og hamfarir. Safnið verður einnig opið fyrir skólahópa til þess að koma og fræðast um náttúru og jarðvísindi og mun grunnskólabörnum í Reykjavík tvisvar á skólagöngu sinni gefast kostur á að kynnast náttúru Íslands ásamt kennurum sínum í gegnum sýninguna án endurgjalda.
 
„Sýningin í Perlunni verður lyftistöng fyrir almenna náttúrfræðiþekkingu í landinu og fjölmargir sérfræðingar framtíðarinnar í náttúrúvísindum eiga eftir að næra áhugann í Perlunni. Við erum þakklát og stolt yfir því að fá tækifæri til að setja upp stærstu náttúrúsýningu landsins í jafn mikilvægu kennileiti í höfuðborginni og Perlan er. Við munum leggja mikla áherslu á faglegan grunn í öllu fræðsluefni fyrir gesti sýningarinnar,“ segir Helga Viðarsdóttir, stjórnarformaður Perlu norðursins.
 
Sýningin verður öll hin glæsilegasta og mikið lagt í uppsetningu hennar. Unnið verður  með færustu hönnuðum, fræðifólki og tæknimönnum Íslands svo og erlendum aðilum sem hafa komið að stærstu náttúrusýningum heims.
 
Áætlað er að opna sýninguna í tveimur áföngum:
  • Á vormánuðum 2017 verða ísgöngin og stjörnuver opnuð.
  • Í lok árs 2017  er áætlað að opna sýninguna og veitingastaði í heild sinni.
Veitingastaður og kaffitería Perlunnar verða í óbreyttri mynd fram til ársloka 2016.