Spurningin er: Til hvers eru borgir?

Umhverfi Skipulagsmál

""

Glímt verður við spurninguna Til hvers eru borgir? á næsta fundi á vegum umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar og verður haldinn þriðjudaginn 10. október kl. 20. á Kjarvalsstöðum.

Spurningin um til hvers eru borgir kallar á margskonar svör. Svarið gæti t.d. verið tengt hagsæld og hagfræði, umhverfi og skipulagi eða félagslegum samskiptum.

Frummælendur eru Gunnar Haraldssonhagfræðingur, Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður, Ágústa Kristófersdóttir forstöðumaður Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar og Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs.

Markmiðið er að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi. Leitað er eftir gagnrýnni og hressilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni. Ekki er boðið upp á átök milli andstæðra sjónarmiða heldur felst aðferðin í því að greina og opna fyrir möguleika og að fólk haldi áfram að hugsa málin eftir fundina.

Fundir fyrri anna hafa verið mjög vel sóttir, bæði af fagfólki og áhugafólki um skipulag og umhverfi borgarinnar og síðan eftir því hvert umræðuefnið hefur verið. Rætt er á mannamáli út frá skemmtilegum sjónarhornum um brýn efni. Fundurinn á Kjarvalsstöðum annað kvöld er fyrsti fundurinn á haustmisseri 2017.

Boðið er upp á kökur og kaffi og reynt að skapa kaffihúsastemningu. Allir eru velkomnir.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur ásamt Hjálmari Sveinssyni, formanni umhverfis- og skipulagsráðs, fyrir fundarröðum um umhverfis- og skipulagsmál

Fyrri fundir á Kjarvalsstöðum

Fundirnir eru haldnir á haust- og vormisseri á Kjarvalsstöðum á Klambratúni.  Heiti fundanna hafa verið eftirfarandi:

1. Hver á borgina? 10. október 2014
2. Er borgin heilsusamleg? 12. nóvember 2014.
3. Á að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu? 13. janúar 2015.
4. Hver eru áhrif borgarumhverfis á hamingju? 10. febrúar 2015.
5. Hvaða máli skiptir náttúran í borgarumhverfi? 10. mars 2015.
6. Er miðborgin fyrir ferðamenn, íbúa eða alla? 13. október 2015.
7. Vinsamleg borg fyrir börn og unglinga. 10. nóvember 2015.
8. Loftslagsmál - hvað getum við gert? 9. febrúar 2016.
9. Menningararfurinn í brennidepli. 15. mars 2016.
10. Fjölmenning í ljósi umhverfis og skipulags. 12. apríl 2016.
11. Fagurfræðin í borgarskipulaginu. 11.október 2016.
12. Ríkir hugarfar sköpunar í Reykjavík? 15. nóvember 2016.
13. Útivist í borgarumhverfi. 17. janúar 2017
14. Borg gangandi vegfarenda. 14. febrúar 2017
15. Borg hjólandi vegfarenda. 14. mars 2017

Tengill

Viðburður á facebook varðandi fundinn 10. okt

Auglýsing um fundinn