Sorphirða um jól og áramót 2016-217

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Mikilvægt að greiða götu starfsfólks við sorphirðustörf með snjómokstri og hálkuvörnum. Hægt er að setja allt tilfallandi umframsorp sem ekki rúmast í gráu tunnunni í sérmerkta poka. Einnig er hægt að skila úrgangi á endurvinnslustöðvar SORPU

Aðgengi að tunnum hefur verið gott í desember og er sorphirða á áætlun en þó er útlit fyrir snjókomu næstu daga. Unnið verður stíft fram að jólum og milli jóla og nýárs við að losa tunnur í Reykjavík og mikilvægt að greiða götu starfsfólks við sorphirðustörf með snjómokstri og hálkuvörnum ef svo ber undir. Ganga þarf vel frá tunnum á þessum árstíma og gæta þess að umframúrgangur um hátíðirnar tefji ekki fyrir hirðu.

Magn úrgangs eykst alltaf verulega í desember og  eru íbúar eru hvattir til að flokka það sem til fellur eins og mögulegt er. Einnig að setja allt tilfallandi umframsorp sem ekki rúmast í gráu tunnunni í sérmerkta poka sem hægt er að kaupa hjá N1 stöðvum í Reykjavík og í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14. Pokinn er eingöngu ætlaður undir blandaðan heimilisúrgang frá heimilum í Reykjavík og skal staðsetja hann við hlið tunnunnar.

Einnig er hægt að skila úrgangi á endurvinnslustöðvar SORPU bs. sem eru sex á höfðuborgarsvæðinu. Opið verður á endurvinnslustöðvum á Þorláksmessu frá kl. 12.30 til 19.30 nema á Breiðhellu en þar opnar kl. 8.00. Endurvinnslustöðvar verða aftur opnar eftir jól kl. 12.30 þann 27. desember.

Benda má á að ávallt er hægt að skila pappírs- og plastefnum til endurvinnslu á grenndarstöðvum í Reykjavík og í bláar og grænar tunnur og dregur það úr því magni sem annars færi í gráu tunnuna.

Skila má öllum gjafaumbúðum úr pappír á grenndar- og endurvinnslustöðvar og í bláu tunnuna, hvort sem þær eru litaðar eða ekki. Umbúðir úr plasti er hægt að setja í grænu tunnuna undir plast sem hefur staðið Reykvíkingum til boða og á grenndar- og endurvinnslustöðvar.