Sorphirða gengur vel

Umhverfi

""

Hátíðarnar eru annasamur tími hjá starfsfólki Sorphirðu Reykjavíkur, bæði er úrgangur í meira mæli en venjulega og oft truflar veðrið störfin. Allt hefur gengið samkvæmt áætlun að þessu sinni og lítið um kvartanir. 

Óhjákvæmileg afleiðing í kringum jól og áramót  er aukið úrgangsefni frá heimilum. Starfsfólk Sorphirðu Reykjavíkur lagði sig því verulega fram um hátíðarnar en unnið var lengur en venjulega tíðkast fyrir jól og á milli hátíða. Störfin hófust eldsnemma þann þriðja í jólum og var unnið lengur þá viku eða fram að gamlársdegi. Aftur á móti var lögbundið frí á nýársdag.

„Starfið gengur vel í Reykjavík. Við kláruðum að sækja allan blandaðan úrgang austan Elliðaáa fyrir nýárið eins og áætlað var og erum núna að tæma ílát vestan Elliðaáa, byrjuðum í Vesturbænum strax eftir áramótin,“ segir Sigríður Ólafsdóttir rekstrarstjóri sorphirðunnar. Hún segir álagið mikið en ekki sé mikið um kvartanir frá íbúum. Einn dag vanti upp á hefðbundna viku þar sem mánudagurinn var frídagur en þau muni vinna það upp fyrir helgi ef allt gengur eftir.

Hægt er að sjá hvenær sorphirðan er að störfum við losun á tunnum í hverfum: Sorphirðudagatal

Endurvinnsla

Kjörið er að skila endurvinnsluefnum á grenndarstöðvar í hverfum og í endurvinnslustöðvar Sorpu. Sjá opnunartíma: OpnunartímarÁ grenndarstöðvum eru gámar undir pappír og plast, auk gáma undir gler og dósir með skilagjaldi í umsjá skátanna og undir fatnað á vegum Rauða krossins. Gámar undir gler án skilagjalds eru á 23 stöðum í Reykjavík. Íbúum er bent á að gámarnir virðast stundum vera fullir ef endurvinnsluefnum hefur ekki verið ýtt alveg inn um op þeirra. Tvö op eru á gámunum sem hægt er að stinga endurvinnsluefnum inn um. 

Endurvinnslustöðvar taka við stærri hlutum

Opin á gámun á grenndarstöðvum eru höfð 40 cm í þvermál öryggisins vegna en dæmi eru um alvarleg slys á börnum í nágrannalöndum okkar sem hafa skriðið inn í gáma undir úrgang. Borið hefur á því núna að pappaumbúðir séu skildar eftir við gámanna þar sem ekki er hægt að stinga þeim í opið. Íbúum er bent á að skila þeim endurvinnsluefnum sem ekki komast í gámana á grenndarstöðvunum á endurvinnslustöðvar Sorpu. Sama á við um annan úrgang sem ekki er tekið við á grenndarstöðvum. Dæmi eru um að sjónvörp, húsgögn og jafnvel eldhúsinnréttingar séu skildar eftir á grenndarstöðvum.  

Flugeldaleifar

Mikilvægt er að allir leggist á eitt og hreinsi upp leifar af skoteldum í sínu nánasta umhverfi. Mælst er til þess að fólk skili því sem safnast á endurvinnslustöðvar SORPU bs. en setji ekki í tunnur fyrir almennt heimilissorp. Starfsfólk Sorpu veitir góðar ráðleggingar um í hvaða gáma á að setja flugeldaleifarnar.

Tenglar

Flokkun úrgangs

Sorphirðudagatal

Opnunartímar

Flugeldaleifar

Myndband um starfsemi sorphirðunnar