Sorphirða fyrir og eftir jól

Umhverfi Skipulagsmál

""

Veður og færð hefur tafið sorphirðu í Reykjavík. Mikilvægt er að hreinsa frá sorpgerðum. Litaður gjafapappír má fara í bláu tunnuna.

Veður og snjóalög hafa tafið losun sorpíláta við heimili í Reykjavík undanfarna daga og er sorphirða nú tæpum degi á eftir áætlun. Ekki tókst að klára losun í Vesturbænum í gær, fimmtudag, þrátt fyrir að starfsfólk hafi unnið við sorphirðu frameftir flesta daga vikunnar. Starfsfólk sorphirðunnar verður að störfum á morgun laugardag, mánudag, þriðjudag og fyrir hádegi á aðfangadag ef þörf krefur og veður leyfir.

Vonast er til að hægt verði að losa allar tunnur fyrir jól, eins og losunardagatal borgarinnar segir til um, og hefst vinnan aftur eftir jól laugardaginn 27. desember.

Nauðsynlegt að bæta aðkomu

Víða hefur þurft að sleppa því að losa tunnur þar sem aðkomuleiðir að þeim eru ógreiðfærar. Sérstaklega þarf að huga að því að hægt sé að opna sorpgerði og hurðir því þær geta átt það til að frjósa fastar.

Nauðsynlegt er að moka tröppur á aðkomuleiðum og frá sorpgeymslum næstu daga og hálkuverja með sandi eða salti til að greiða götu starfsfólks við störfin. Verði ekki hægt að losa tunnur vegna slæmra aðstæðna er ekki öruggt að sorphirðubíllinn geti komið fyrir jól.

Poki fyrir umframsorp

Allt tilfallandi umframsorp sem ekki rúmast í gráu tunnunni á að vera í sérmerktum pokum sem hægt er að kaupa hjá N1 stöðvum í Reykjavík og í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14. Þegar poki fyrir umframsorp er nýttur skal staðsetja hann við hlið tunnunnar. Pokinn er eingöngu ætlaður heimilum í Reykjavík og undir blandað heimilissorp. 

Benda má á að flokkun og skil, á þær 86 grenndarstöðvar og sex endurvinnslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, dregur úr því magni sem annars færi í gráu tunnuna.

Allur gjafapappír í bláu tunnuna

Allar gjafaumbúðir úr pappír má setja í bláu tunnuna og í pappírsgáma á grenndar- og endurvinnslustöðvar, hvort sem þær eru litaðar eða ekki. Ganga þarf úr skugga um að þær séu sannarlega gerðar úr pappír en ekki plasti.