Snyrti- og húðflúrþjónusta í heimahúsum

Heilbrigðiseftirlit

""

Þjónusta í heimahúsum, þ.á.m. húðflúrun á andliti á augnlínu, varalínu eða augabrúnum er starfsleyfisskyld. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hvetur fólk til að ganga úr skugga um að leyfisskyld þjónusta sé með gilt starfsleyfi.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vill að gefnu tilefni vekja athygli á að starfsemi á borð við snyrti- og húðflúrstofur er leyfisskyld og háð heilbrigðiseftirliti. Til að fá útgefið starfsleyfi þarf starfsemin að uppfylla nokkrar grundvallarkröfur sem settar eru fram í starfsleyfisskilyrðum fyrir starfsemina og ætlað er að tryggja öryggi viðskiptavina hvað varðar smithættu, hreinlæti og hollustuhætti. Einnig þarf húsnæðið að vera samþykkt fyrir starfsemina af embætti byggingarfulltrúa. Ef boðið er upp á varanlega förðun eins og húðflúr þarf viðkomandi að hafa leyfi frá Landlæknisembættinu. Jafnframt er vakin athygli á því að starfsleyfið skal vera sýnilegt viðskiptavinum.

Heilbrigðiseftirlitið fær af og til ábendingar um  að verið sé að veita ýmiss konar þjónustu m.a. í heimahúsum, þ.á.m. svokallaða varanlega förðun sem er húðflúrun á andliti oft á augnlínu, varalínu eða augabrúnum. Heilbrigðiseftirlitið kannar þessar ábendingar og nær undantekningalaust er um að ræða rekstur án starfsleyfis og því hefur ekki verið sýnt fram á nauðsynlegu hreinlæti eða sýkingavörnum sé sinnt.

Með því að beina viðskiptum sínum til leyfislausra aðila getur viðskiptavinurinn verið að taka óþarfa áhættu sbr. ofangreint og hvetur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hvetur fólk til að ganga úr skugga um að leyfisskyld þjónusta sé með gilt starfsleyfi. Hægt er að leita í starfsleyfisgagnagrunni Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og kanna hvort fyrirtæki hafi gilt starfsleyfi. Einnig er hægt hafa samband við Heilbrigðiseftirlitið í síma 411-1111 eða með því að senda tölvupóst á Heilbrigðiseftirlitið.