Sléttur pappír þarf að fara í endurvinnslu

Umhverfi Skipulagsmál

""

Reykvíkingar eru duglegir að flokka dagblöð og tímarit, skrifstofupappír og pappa og skila til endurvinnslu. Þetta kemur fram í rannsókn Sorpu á samsetningu blandaðs úrgangs í gráum tunnum borgarbúa.  

Töluvert vantar þó upp á flokkun á sléttum pappír eins og morgunkornskössum, skókössum, kexpökkum og öðrum umbúðum úr pappír.

Þrátt fyrir að borgarbúar hafi skilað 3.267 tonnum af pappírsefnum í bláu tunnuna á síðasta ári þá er  hlutfall pappírs í blandaða úrganginum ennþá of hátt eða 11%, en var í nóvember 2013 um 8%. Af þessum 11% er 7% sléttur pappír. „Borgarbúar hafa hér verk að vinna. Það virðast ekki allir átta sig á því að það á einnig að setja umbúðir úr pappír í bláu tunnuna. Það má einnig skila þessum umbúðum á næstu grenndar- eða endurvinnslustöð og í aðrar endurvinnslutunnur,“ segir Eygerður Margrétardóttir deildarstjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði.

Samsetning blandaðs úrgangs

Langmest er af eldhúsúrgangi í blönduðum úrgangi, 41% sem gera 7.441 tonn á ári.  Plastið er 19% af blönduðum úrgangi sem gera 3.399 tonn á ári. Borgarbúar fóru með 70 tonn af plasti til endurvinnslu í á grenndarstöðvar árið 2014. Íbúar skila endurvinnsluefni á grenndarstöðvar í sífellt ríkara mæli og árið 2014 voru 10 stöðvar sem tóku við 25 tonnum eða meira yfir árið. Mest skilaði sér á Bústaðaveg eða 39 tonn. 

Flökkusagan um holuna

Vandasamt hefur reynst að kveða niður flökkusögu um að allur úrgangur fari í sömu holuna og hafa eflaust flestir heyrt hana oftar einu sinni. Einhver á að hafa orðið vitni að því að sorphirðubifreið með efni til endurvinnslu hafi sturtað innihaldinu á sama stað og öllu öðru. SORPA bs. hefur því spurt í neyslukönnunum undanfarin 11 ár hversu trúverðug eða ótrúverðug finnst þér eftirfarandi fullyrðing: „Allur sá úrgangur sem kemur flokkaður til endurvinnslu á endurvinnslustöðvar SORPU bs. er endurunninn.“

Í ljós kemur að aðeins 56% telja það mjög eða frekar trúverðugt. „Ég vil því ítreka það að allt efni sem íbúar flokka frá og skila á tilskylda staði fer að sjálfsögðu til endurvinnslu,“ segir Eygerður. 

Hér er hægt að skoða myndband um endurvinnslu á pappa- og pappírsbúðum, og sjá hvernig hráefnið pappír verður að nýrri vöru.

Viðhorfskönnun Sorpu

Greining SORPU á samsetningu blandaðs úrgangs.

Hvert fer efnið?

Frétt á Stöð 2 um þetta efni