Skylt að þrífa upp eftir hunda

Heilbrigðiseftirlit

""

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vekur athygli á skyldu hundaeigenda að þrífa upp eftir hunda sína og einnig taumskyldu á göngustígum borgarinnar.

Nú stendur yfir mikið hreinsunarstarf í Reykjavík m.a. í tilefni af evrópskri hreinsunarviku 2.-7. maí. Öllum ber að ganga vel um borgina sína t.d. með því að kasta ekki rusli. Einnig er ágætt að minna hundaeigendur á að fjarlægja stykkin eftir hundana. 
 
Töluvert hefur borist af kvörtunum til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að undanförnu vegna hundaskíts á gangstéttum og í almenningsgörðum auk þess að brögð eru að því að farið sé inn á óviðkomandi einkalóðir og skítur settur í tunnur við íbúðarhús. Jafnframt er kvartað yfir því að hundar séu ekki í ól í borgarlandinu og minnt á að taumskylda er í gildi í Reykjavík alls staðar nema þar sem lausaganga er sérstaklega leyfð og á auðum og óbyggðum svæðum fjarri mannabyggð. 
 
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vill því benda hundaeigendum á skyldur sínar að þrífa upp eftir hunda sína þegar þeir gera stykki sín á almannafæri, enda hundaskítur hvimleiður á götum, torgum og gangstéttum fyrir samborgarana og gesti borgarinnar. Þá vill Heilbrigðiseftirlitið benda hundeigendum á að nota ruslastampa eða eigin sorptunnur undir pokana. Hundeigendur sem ekki virða þessi tilmæli koma óorði á hunda i borginni. Tekið skal fram að meirihluti hundeigenda virðir reglurnar. 
 
Tenglar