Skuggasaga - Undirheimar besta frumsamda barnabókin

Mannlíf Menning og listir

""

Þrjár ungar listakonur eru handhafar Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2017 en þau voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. 

Í flokki frumsaminna barnabóka komu verðlaunin í hlut Ragnheiðar Eyjólfsdóttur fyrir Skuggasögu – Undirheima, en hún er seinni hluti Skuggasögu – Arftakinn sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin á árinu 2015. Vaka Helgafell gaf út.

Halla Sverrisdóttir hlaut verðlaunin fyrir þýðingu sína á Innan múranna eftir bandarísku skáldkonuna Nove Ren Suma. Bókaútgáfan Björt gaf bókina út. Verðlaun fyrir bestu myndskreytingu barnabókar sem kom út á árinu 2016 fékk Linda Ólafsdóttir fyrir Íslandsbók barnanna. Þetta er annað árið í röð sem Linda hlýtur þessi verðlaun fyrir myndskreytingu. Iðunn gaf bókina út.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í Höfða, en þau hafa verið afhent árlega frá árinu 1973.  

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabækurnar segir;
"Í Skuggasögu – Undirheimum skapar Ragnheiður Eyjólfsdóttir úthugsað ævintýri og sækir innblástur í minni og hugmyndir úr þjóðtrú, goðsögum og fantasíum. Í þessari mögnuðu og hröðu spennusögu fylgir lesandinn Sögu sem hefur verið í útlegð í mannheimum alla sína bernsku en er nú komin til álfheima til að mæta örlögum sínum.

Innan múranna er óvenjuleg en einstaklega fallega ljóðræn saga um erfið málefni eins og jafningjaþrýsting, einelti, kúgun og grimmd. Höllu Sverrisdóttur tekst afar vel að snúa sérstökum stíl bandarísku skáldkonunnar Nova Ren Suma á milli mála.

Íslandsbók barnanna sameinar fróðleik og skemmtun á töfrandi og aðgengilegan hátt. Myndheimurinn sem Linda Ólafsdóttir dregur upp og texti bókarinnar klæða hvort annað einstaklega vel og  sameinast í riti sem er bæði tímalaust og tímabært. "

Við verðlaunaafhendinguna í Höfða léku nemendur í Allegró Suzuki tónlistarskólanum og sigurvegarar úr Stóru upplestrarkeppninni lásu upp úr verðlaunabókunum.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar þjóna þeim tilgangi að vekja athygli á gildi góðra bókmennta í uppeldisstarfi og á metnaðarfullri útgáfu barnabóka. Valnefnd var að þessu sinni skipuð Brynhildi Björnsdóttur formanni, Jónu Björgu Sætran borgarfulltrúa, Gunnari Birni Melsted grunnskólakennara, Davíð Stefánssyni fulltrúa Rithöfundasambands Íslands og Þórdísi Aðalsteinsdóttur fulltrúa Sambands íslenskra myndlistarmanna. 

Meira um Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar.