Skráning hafin í haustsmiðjur kennara 2015

Skóli og frístund

""

SKRÁNINGUM ER LOKIÐ Í HAUSTSMIÐJUR!

Haustsmiðjur fyrir grunnskólakennara í Reykjavík verða haldnar 12. - 13. ágúst. Boðið er upp á  24 námskeið. 

SKRÁNINGUM ER LOKIÐ Í HAUSTSMIÐJUR!

Haustsmiðjur fyrir grunnskólakennara í Reykjavík verða haldnar 12. - 13. ágúst næstkomandi. Skráning er nú hafin og er boðið upp á 24 fjölbreytt símenntunarnámskeið sem tengjast námi og kennslu. Kennarar geta skráð sig á eitt eða fleiri námskeið. Mikil þátttaka hefur verið í haustsmiðjunum undanfarin ár en skráning mun standa til og með 12. júní.

Námskeiðslýsingar

1. Eðlisfræði – hagnýtt grunnnám 

Markhópur: Kennarar á miðstigi.
Markmið: Að efla færni þátttakenda í kennslu um rafmagn og segulmagn á miðstigi grunnskóla.
Inntak: Fjallað verður um grundvallaratriði í rafsegulfræði að því marki sem hentar kennurum á miðstigi grunnskóla. Gerð verður grein fyrir þekkingu á algengum forhugmyndum barna og unglinga um rafmang og segulmagn. Kynntar verða heildstæðar leiðir til að vinna með börnum á miðstigi til að efla skilning þeirra á rafmagni og segulmagni, skoðuð námsgöng, kynntar verklegar athuganir og verkefni sem líkleg eru til að efla læsi nemenda og gefa þeim færi til að nýta sköpunargáfu sína í náminu, og drepið verður á hugmyndum um nám um rafmagn og segulmagn utan kennslustofunnar.
Kennari: Haukur Arason, Dósent, Menntavísindasviði HÍ.
Staður og tími: Vogaskóli, 12. og 13. ágúst kl. 8:30 - 12 báða daga og framhald  síðar í haust.

2. Félagsfærni og samskipti

Markhópur: Allir kennarar.
Markmið námskeiðsins eru að:
• fjalla um og prófa kennsluaðferðir sem stuðla að virkri þátttöku og jöfnum tækifærum fjölbreytts nemendahóps í anda aðalnámskrár og Pestalozzi  hugmyndafræði Evrópuráðsins,
• að gefa þátttakendum tækifæri til að þróa slíkar aðferðir og laga að eigin starfsumhverfi,
• að kanna og ræða hvernig lýðræðislegar og virkar kennsluaðferðir stuðla að jákvæðum samskiptum og nýtast við bekkjarstjórnun,
• að safna hugmyndum og þróa verkfæri til áframhaldandi framþróunar á vettvangi,
• skapa farveg til tengslamyndunar og áframhaldandi samvinnu.
Inntak: Starfshættir sem taka mið að af félagsfærni, samskiptum og bekkjarstjórnun út frá hugmyndafræði menntunar til lýðræðis og mannréttinda.
Kennarar: Aldís Yngvadóttir og Guðrún Ragnarsdóttir sérfræðingar í hugmyndafræði Pestalozzi
Staður og tími: Vogaskóli 12. - 13. ágúst kl. 8:30 - 12:00  báða dagana.

3. Hagnýtt tölvunámskeið

Markhópur: Allir kennarar.
Markmið og inntak: Flestir þekkja Word og PowerPoint að einhverju leyti og nýta það sem þeir kunna vel en annað ekki. Hér verða kynntir ýmsir þægilegir möguleikar sem hægt er að nota í þessum forritum í daglegu starfi. Með viðbótarþekkingu í notkun þessara forrita er hægt að spara tíma og bæta framsetningu efnis til muna. Farið er ítarlega í gerð taflna, innsetningu mynda og vinnu með þær, notkun á SmartArt og Chart valmöguleikum og ýmislegt fleira.
Kennari: Guðrún Hjartardóttir, verkefnastjóri á skrifstofu SFS
Staður og tími: Borgartún 12, Hrafnhólar 7. hæð. 12. ágúst kl. 8:30 - 12:00.

4. Jákvæð viðmið um stærðfræðikennslu 

Markhópur: Kennarar á unglingastigi.
Markmið: Að stuðla að faglegu samstarfi kennara og/eða skóla um stærðfræðinám og skapa vettvang fyrir umræður.
Inntak: Á námskeiðinu verður lögð áhersla á að skoða kenningar og leiðir til að skapa námsumhverfi þar sem:
• jafnrétti og lýðræði er haft að leiðarljósi og allir hafa jafna möguleika til náms
• byggt er á samvinnunámi sem eykur stærðfræðihæfni og félagslega hæfni
• nemendur byggja upp jákvæða sjálfsmynd í stærðfræðinámi
Þátttakendur vinna að ýmsum verkefnum með sínum nemendum á milli lota.
Kennari: Þóra Þórðardóttir stærðfræðikennari í Menntaskólanum í Kópavogi, (Þóra kenndi áður í grunnskóla).
Staður og tími: Vogaskóli, 13. ágúst kl. 13:00 - 15:10  og tvær lotur síðar í haust.

5. Leið til læsis

Markhópur: Námskeiðið er ætlað kennurum sem kenna í 1. bekk ásamt sérkennurum á yngsta stigi grunnskóla, en ætlast er til að bekkjarkennarar leggi prófið fyrir (með aðstoð sérkennara). Námskeiðið nýtist kennurum  í 2. -  4. bekk  jafnframt mjög vel, því meðfram skimunarprófinu er einnig fjallað um eftirfylgniprófin sem þeir kennarar munu einnig leggja fyrir.
Markmið: Á námskeiðinu verður kennt hvernig á að vinna með lesskimunarprófið Leið til læsis. Jafnframt er leiðbeint um fyrirlögn og túlkun eftirfylgniprófa.   Í kjölfarið veitir námskeiðið kennurum réttindi til að leggja prófin fyrir og vinna með stuðningskerfið.
Inntak: Fjallað verður um fræðilegar forsendur skimunarprófsins og þá hugmyndafræði sem „snemmtæk íhlutun“ og  „einstaklingsmiðuð lestrarkennsla“ byggir á.
Innihaldsþættir prófsins verða kynntir, annars vegar þættir sem spá fyrir um færni í umskráningu og stafaþekkingu og hins vegar þættir sem spá fyrir um færni í lesskilningi. Þátttakendum verður leiðbeint með fyrirlögn, úrvinnslu og túlkun prófsins og hvaða upplýsingar það gefur um þá þætti sem leggja þarf áherslu á með hverjum og einum nemanda. Þótt lögð sé áhersla á þá nemendur sem eiga erfitt uppdráttar í lestrarnámi er jafnframt horft til hinna sem þegar eru komnir vel á veg.
Á námskeiðinu verður farið yfir hvernig hægt er að skipuleggja lestrarkennslu í blönduðum nemendahópi í kjölfar skimunar og hvernig  nýta má Handbókina í kennslu.

Eftirfylgnipróf fyrir 1. - 4. bekk
Á námskeiðinu verða einnig kynnt eftirfylgnipróf fyrir 1. - 4. bekk og leiðbeint um notkun þeirra.
Niðurstaða lestrarmats er mikilvægur grunnur að nýjum einstaklingsmarkmiðum  og áherslum í kennslu sem taka mið af stöðu hvers nemanda, þörfum hans og getu.

Réttindi á skimunarprófið (stuðningskerfið)
Að námskeiðinu loknu fá þátttakendur viðurkenningarskjal sem staðfestir réttindi þeirra til að nota Leið til læsis-lesskimun.
Kennari: Steinunn Torfadóttir og Helga Sigurmundsdóttir
Staður og tími: Vogaskóli, 12. ágúst kl. 13:00 - 16 og 13. ágúst kl. 8:30 - 12:00.

6. List- og verkgreinar

Markhópur: List-og verkgreinakennarar.
Markmið og inntak: Markmið námskeiðsins er að veita þátttakendum staðgóða menntun í málefnum sem tengjast sjálfbærri þróun svo þeim verði eðlislægt að laga efnið að inntaki kennslunnar.
Á þessu námskeiði verður fjallað um hvernig list- og verkgreinakennarar geta með störfum sínum stuðlað að menntun til sjálfbærni. Í því ljósi er fjallað um vinnuferli listamanna og hönnuða sem tengja má viðfangsefninu. Ólíkar nálganir í námi verða ræddar með áherslu á grenndarkennslu og að vera læs á umhverfið og eigin gildismat. List- og verkgreinar sem og aðalnámskrá grunnskóla verða greindar í tengslum við menntun til sjálfbærni og rætt verður hverju fögin geta skilað þegar unnið er markvisst með nemendum að því að skynja, greina og meta. Sérstök áhersla verður lögð á að auka færni þátttakanda í gerð hæfniviðmiða og námsmatsviðmiða í tengslum við menntun til sjálfbærni. Rætt verður um hvernig áhersla á menntun til sjálfbærni getur lagt grunn að persónulegu gildismati sem byggir á sjálfbærri og skapandi hugsun og í því ljósi hvernig kennarar geta þróað eigin kennsluhætti að þessum áherslum.
Kennarar:  Ásthildur B. Jónsdóttir, lektor við Listháskóla Íslands , Sigrún Guðmundsdóttir fyrrverandi lektor,  Ólöf Ágústína Stefánsdóttir kennari o.fl.
Staður og tími: Vogaskóli, 12. - 13. ágúst kl. 9 - 16:00 báða dagana.

7. Lífsspeki í rafheimum

Markhópur:  Allir.
Markmið: Markmið verkefnisins er að kynna áherslur aðalnámskrár um ábyrga miðlanotkun, benda á fræðsluefni og kynna helstu hugtök. Eins verður fjallað um stýringar á snjalltækjum og góðar fyrirmyndir að samningum og sáttmálum sem skólar hafa unnið til að stuðla að fjölbreyttri, skapandi, gagnrýnni og ábyrgri notkun upplýsingatækni í skólastarfi.
Inntak: Fjallað verður um eftirfarandi viðfangsefni á námskeiðinu:
• Hvað er miðlalæsi?
• Hvað er stafræn borgaravitund?
• Ábyrg notkun og sáttmálar skólasamfélaga um upplýsinga- og samskiptatækni
• Með eigin tæki (e. BYOD: Bring Your Own Device) og lausnir til að stýra snjalltækja- og netnotkun
• Ábyrgð á eigin námi og lýðræðislegir kennsluhættir
• Hæfniviðmið í upplýsinga- og tæknimennt er lúta annars vegar að upplýsingaöflun og úrvinnslu og hins vegar að siðferði og öryggismálum.
Kennarar: Kennsluráðgjafar í upplýsingatækni og hugsanlega sérfræðingar frá SAFT og fjölmiðlanefnd.
Staður og tími: Vogaskóli,  12. ágúst kl. 9:00 - 12:00.

8. Markþjálfun

Markhópur: Allir.
Markmið:  Að grunnskólakennarar fái innsýn í aðferðafræði markþjálfunar til að efla færni í kennslu og skilvirkari samskiptum við nemendur. Einnig mun þetta efla samskiptafærni við foreldra og samstarfsmenn ásamt því að auka vellíða kennarans og árangur hans.
Leiðir: Aðferðafræði markþjálfunar stuðlar að því að stækka bæði sjálfan sig og einnig aðra og að styrkja. Markþjálfun hefur verið að hasla sér sess á Íslandi síðustu 10 ár. Námskeiðið er kennt bæði með fyrirlestrum og er mikil áhersla lögð á verklegar æfingar. Ýmsar stofnanir hafa sýnt fram á að með notkun aðferðafræðinnar er hægt að auka árangur í samskiptum. Farið verður í 11 grunnhæfnisþætti aðferðafræði markþjálfunar. Gerðar eru æfingar þar sem þátttakendur geta æft sig í að nota þessa aðferðafræði. Einnig verður sýnishorn þar sem kennarinn (Matilda) tekur einhvern sjálfboðaliða (þátttakanda úr hópnum) í markþjálfun og hópurinn rýnir í aðferðina á meðan.
Kennari: Ásta G. Guðbrandsdóttir og Matilda Gregersdotter markþjálfar
Staður og tími: Vogaskóli, 12. og 13. ágúst kl. 9:00 - 12:30. Eftirfylgd þrjár lotur í  sept. kl. 14 - 17  í Borgartúni 12 - 14.

9. Moodle vinnusmiðja

Markhópur: Allir.
Markmið: Að þátttakendur búi til sinn eigin Moodle-vef úr efni sem þeir eiga sjálfir eða úr hráefni sem þegar er til á Moodle-vef Reykjavíkurborgar
Inntak: Helstu hlutar Moodle-námsumsjónarkerfisins eru kynntir með það að leiðarljósi að þeir komi að gagni við þá áfanga sem kennarar hafa í smíðum í vinnusmiðjunni. Þá verða þeir áfangar og þau verkefni sem til eru á Moodle-vef Reykjavíkurborgar kynntir og kennarar aðstoðaðir við að setja þetta efni upp í eigin áföngum.
Kennarar: Ágúst Tómasson og Anna María Þorkelsdóttir, kennarar
Staður og tími: Vogaskóli 12. og 13. ágúst kl. 9:00 - 12 báða dagana.

10. Nemendamiðað skólastarf

Markhópur:  Allir kennarar.
Markmið: Á næstu árum verður lögð aukin áhersla á ábyrgð nemenda í eigin námi og í skólastarfinu. Þetta er gert í samræmi við áherslur aðalnámskrár og það sem er að gerast í skólum um allan heim. Markmið þessa námskeiðs er að ná til kennara sem hafa áhuga á því að gerast leiðtogar á þessu sviði í grunnskólum í borginni og gefa þeim tækifæri til að kynnast hagnýtum leiðum til að auka ábyrgð nemenda.
Þeim þátttakendum námskeiðsins sem þess óska gefst í kjölfarið kostur á að taka þátt í tilraunaverkefni á haustönn sem í megin dráttum felst í því að kenna þrjár nemendamiðaðar kennslustundir.  Hvatt er til að teymi kennara frá einstökum skólum sæki námskeiðið.
Inntak: Fyrirlestrar, upplýsingar og umræður
Kennari: Kennarar , stjórnendur og fleiri sérfræðingar þ.á.m. Sif Vígþórsdóttir frá Norðlingaskóla og Eygló Rúnarsdóttir.
Staður og tími: Vogaskóli, 13. ágúst kl. 8:30 - 12:00.

11. Ný kennslubók í eðlisfræði og stjörnufræði

Markhópur: Náttúrufræðikennarar á unglingastigi.
Markmið: Að þátttakendur kynnist hugmyndafræði og kennslufræðilegum möguleikum nýútkominnar kennslubókar í eðlisfræði og stjörnufræði.
Inntak: Nýlega kom út ný kennslubók í eðlisfræði og stjörnufræði sem nefnist „Eðlis- og stjörnufræði I“. Fjallað verður um kennslufræðilegar hugmyndir sem liggja að baki bókinni, gerð grein fyrir því hvernig hún er uppbyggð og fjallað um notkun hennar í eðlis- og stjörnufræði kennslu á unglingastigi grunnskóla. Kynnt verður stuðningsefni sem fylgir bókinni. Fjallað verður um það hvernig nýta má kennslubókina til að styðja við hugtakanám, tengja hana verklegri kennslu og grunnþáttum menntunar.
Kennarar: Höfundar bókarinnar, Haukur Arason, Kjartan Örn Haraldsson og Sverrir Guðmundsson
Staður og tími: Vogaskóli, 13. ágúst kl. 13 - 16:00.

12. PALS – lestrarnámskeið

Markhópur: Kennarar sem kenna 2. - 6. bekk og þeir sem hafa áhuga.
Markmið og inntak: Að þátttakendur kynnist PALS aðferðinni og geti tileinkað sér hana í starfi. Annað: Innifalið í námskeiðinu er handbók og námskeiðsgöng.  Gert er ráð fyrir að þátttakendur taki þátt í öllu námskeiðinu.
Kennari: Ásdís Hallgrímsdóttir og Kristín Inga Guðmundsdóttir
Staður og tími:  Vogaskóli, 13. ágúst kl. 14:00 - 17:30.
Námskeiðið er haldið í samstarfi við SÍSL verkefni Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða.

13. Rafbækur í skólastarfi

Markhópur:  Allir.
Markmið: Markmið námskeiðsins er að kynna fjölbreytta notkunarmöguleika rafbóka sem verkfæris í
skólastarfi og kynna helstu möguleika forritsins BookCreator.
Inntak: Á námskeiðinu verðir farið yfir hvernig notkun rafbóka getur auðgað nám nemenda og stutt við fleiri leiðir til tjáningar en ritaður texti gerir. Unnið verður með smáforritið BookCreator (sem til er fyrir bæði iOs og Android stýrikerfi) og fjallað um eftirfarandi viðfangsefni:
Almennt um notkun rafbóka:
• Fjölbreytt dæmi um  skólaverkefnum
• Um rafbók sem samskiptabók milli heimila og skóla
• Um ábyrgð og mat nemenda á eigin námi með skráningu námsferlis í rafbók
Helstu verkfæri BookCreator: 
• Hljóð, myndir, textar, myndskeið og teikningar
• Mismunandi leiðir til að flytja rafbækur á milli tækja
• Leiðir til að flytja rafbækur úr forritinu (sem ePub, PDF og myndbönd á YouTube)
Kennarar: Rakel. G. Magnúsdóttir og Bjarndís Fjóla Jónsdóttir
Staður og tími: Vogaskóli, 13. ágúst kl.13:00 - 16:20.

14. Skýjalausnir í skólastarfi

Markhópur:  Allir.
Markmið: Markmið verkefnisins er að kynna hugmyndafræði um notkun skýjalausna í skólastarfi, fjalla um möguleika skýjalausna til námsumsjónar, tengja við samvinnunámsmöguleika og beina athyglinni að algengustu skýjalausnum sem nýttar eru í skólakerfinu.
Inntak: Á námskeiðinu verður fjallað um eftirfarandi þætti:
• Skýjalausnir og samvinnunám
• Frá einfaldri til viðameiri námsumsjónar á neti
• Skólaþróunarverkefni með Office365
• Uppsetning Google Apps for Education (GAFE)
Helstu verkfærin: 
• Pósturinn, dagatalið, skráarsvæðið, ritvinnslan, töflureiknirinn, kynningarnar,
• vefsíðurnar, formin, teikningar, hangsið o.fl.
• Skólastofan
Kennari: Flosi Kristjánsson og Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir
Staður og tími: Vogaskóli, 12. ágúst. kl. 13:00 - 16:30.

15. Spjaldtölvur á yngsta stigi

Markhópur:  Kennarar á yngsta stigi.
Markmið: Markmið námskeiðsins er að kynna fjölbreytta möguleika snjalltækja í skólastarfi og gefa yfirlit yfir margvíslegar bjargir sem kennarar nemenda á yngsta stigi geta nýtt sér
Inntak: Á námskeiðinu verður verður fjallað um möguleika spjaldtölva í skólastarfi, hagnýtum dæmum um notkun spjaldtölva á yngsta stigi miðlað og gagnlegar upplýsingaveitur á netinu kynntar. Skapandi notkun og valin smáforrit sem tengjast stærðfræði og fjölbreyttu læsi verða til skoðunar 
Fyrirkomulag: Kynningar, hagnýt og fjölbreytt verkefnavinna og umræður
Kennari: Rakel. G. Magnúsdóttir og Bjarndís Fjóla Jónsdóttir
Staður og tími: Vogaskóli, 12. - 13.  ágúst kl. 13:00 - 16:20  báða dagana.

16. Spjaldtölvur í skólastarfi,  allra fyrstu skrefin

Markhópur: Allir.
Markmið: Markmið námskeiðsins er að kynna fjölbreytta möguleika snjalltækja í skólastarfi og gefa yfirlit yfir margvíslegar bjargir sem kennarar sem eru að stíga sín fyrstu skref í notkun snjalltækja í skólastarfi geta nýtt sér.
Inntak: Á námskeiðinu verður fjallað um möguleika spjaldtölva í skólastarfi, hagnýtum dæmum um notkun spjaldtölva miðlað og gagnlegar upplýsingaveitur á netinu kynntar.  Farið verður í helstu stillingar og grunnatriði við notkun spjaldtölva og valin smáforrit skoðuð sérstaklega. 
Fyrirkomulag: Kynningar, hagnýt og fjölbreytt verkefnavinna og umræður.
Kennarar: Rakel. G. Magnúsdóttir og Bjarndís Fjóla Jónsdóttir.
Staður og tími: Vogaskóli 12. ágúst kl. 8:30 - 12:00.

17. Starfendarannsóknir

Markhópur: Allir.
Markmið: Starfendarannsóknir eru rannsóknir sem þeir sem starfa á tilteknum vettvangi stunda til að öðlast betri skilning á eigin starfi og til að auka meðvitund sína um eigin áhrif á starf sitt. Kennarar sem stunda starfendarannsóknir stunda sjálfsrýni og starfsrýni með það að markmiði að efla eigin fagmennsku og bæta starfshætti  sína nemendum til heilla.  Þeir sem stunda starfendarannsóknir gangast inn á það að þeirra eigin ákvarðanir og athafnir geta haft áhrif á það sem gerist í vinnunni.
Að námskeiði loknu hafa þátttakendur:
• fengið innsýn inn í það í hverju starfendarannsóknir felast
• fengið kynningu á rannsóknarferli, rannsóknardagbók, ígrundun, valdefling og gagnaöflun
• prófað að horfa á eigin kennslu með augum rannsakanda með því að skrá niður reynslusögu úr eigin kennslu, ígrunda hana, miðla henni og greina það sem fram kemur í henni
• betri möguleika á að meta hvort þeir vilja taka þátt í starfendarannsóknum

Inntak: Á námskeiðinu fá þátttakendur innsýn inn í aðferðir starfendarannsókna, yfirlit yfir í hverju þær felast og hvernig mögulegt er að stunda þær í daglegu starfi í kennslustofunni.
Fjallað verður um rannsóknardagbók, ígrundun og valdeflingu ásamt mikilvægi gagnasöfnunar.
Unnin verður hópvinna, einstaklingsvinna og einnig verða haldnir fyrirlestrar. Þátttakendur vinna með eigin reynslu úr kennslu.
Kennari: Edda Kjartansdóttir og fleiri
Staður og tími: Vogaskóli, 12. og 13. ágúst kl. 9:00 - 11:30 báða dagana auk eftirfylgdar síðar um haustið.

18. Stuttmyndasmiðja

Markhópur: Allir.
Markmið: Kennarar verði í stakk búnir til að vinna stuttmyndaverkefni með nemendum sínum.
Þátttakendur gera stuttmynd frá handriti til fullbúinnar stuttmyndar. 
Inntak: Hópurinn hittist í fjögur skipti.  Tveir dagar 12. og 13. ágúst en tveir dagar tilkynntir síðar.   Fyrirlestur verður fyrir hádegi og síðan verður hópavinna eftir hádegi.
Seinni hluti námskeiðsins fer síðan fram í september og verður unnið að klippingu í tvo daga eftir hádegi.  Tilkynnt nánar um það síðar.
Kennari: Umsjón Erla Stefánsdóttir en ýmsir kennarar koma að námskeiðinu
Staður og tími: Myndverið í Háaleitisskóla, Hvassaleiti. 12. og 13. ágúst kl. 9:00 - 16:00.

19. Stærðfræði og upplýsingatækni í útinámi

Markhópur:  Öllum grunnskólum borgarinnar, sem gert hafa grenndarsamning um grænt svæði sem vettvang útináms, býðst að senda fulltrúa skólans til þátttöku í teyminu. Um er að ræða þátttakendur úr 19 grunnskólum. Í vetur tóku þátt í teyminu kennarar úr 8 af þessum grunnskólum.
Markmið: Að styðja við innleiðingu menntunar til sjálfbærni með áherslu á að efla útinám í sem flestum greinum grunnskólans.
Á þessu tiltekna námskeiði er markmiðið að varpa ljósi á hvernig UT og stærðfræði geta farið saman í útinámi.
Inntak: Hópurinn mun starfa með sama hætti og teymi grunnskólakennara gerði sl. skólaár, þ.e. hópurinn hittist sex sinnum yfir skólaárið þar sem þátttakendur í teyminu miðla sína á milli hugmyndum, kennsluverkefnum, reynslu og þekkingu. Hér mun þó vera áhersla á að öll vinna hópsins styðji við samþættingu stærðfræði og útináms.  Eins og venjan hefur verið hittist hópurinn á mismunandi grenndarsvæðum í borginni, hver samverustund er 2 klst. löng og fer fram utandyra. Á þessu námskeiði er gert ráð fyrir að tvisvar verið fenginn utanaðkomandi aðili með innlegg til hópsins og sérstaklega horft til þess hvernig UT og stærðfræði geta farið saman í útinámi. Ætlunin er að þessi viðbót verði kennurum hvatning til að tileinka sér UT í stærðfræði í auknum mæli og þá helst í útinámi einnig.
Kennari: Í teymi grunnskólakennara eru það kennararnir sjálfir sem miðla sín á milli en í þau tvö skipti sem utanaðkomandi aðili er fenginn til að fjalla um UT og stærðfræði verður leitað til sérfræðings á Menntavísindasviði HÍ og í UT sérfræðings á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.
Staður og tími: Vogaskóli, 12. ágúst kl. 9:00 - 10:30 og síðar fimm tveggja stunda lotur yfir skólaárið.

20. Sýndartilraunir – kynning

Markhópur:  Allir kennarar sem kenna náttúrufræði.
Markmið: Að þátttakendur kynnist möguleikum sýndartilraun í náttúrufræðikennslu í grunnskólum.
Inntak: Nútíma upplýsingatækni býður upp á fjölmarga möguleika í kennslu. Einn þeirra er sýndartilraunir (e. virtual laboratory, interactive simulations) en þar geta nemendur gert „verklegar athuganir“ í sýndarveruleika. Með því að nýta slíka kennslutækni geta kennarar auðgað kennslu sína og stuðlað bæði að betri skilningi nemenda sinna á náttúrufræði og aukið áhuga þeirra.  Í námskeiðinu verða sýndartilraunir kynntar, fjallað um kosti þeirra og þær áskoranir sem nýting þeirra í kennslu er og ræddar leiðir til að nýta þær í náttúrufræðikennslu.
Kennari: Haukur Arason, Dósent, Menntavísindasviði HÍ.
Staður og tími: Vogaskóli, 12. ágúst kl. 13:00 - 16:00.

21. Upplýsinga- og tæknimennt í skólanámskrá

Markhópur:  Allir.
Markmið: Markmið námskeiðsins er að kynna áherslur aðalnámskrár um notkun upplýsingatækni þvert á námssvið og námsgreinar. Fjallað verður um áherslur aðalnámskrár í upplýsinga- og tæknimennt og rætt um hvað eru mikilvæg viðfangsefni, hæfniviðmið og námsgögn og hvernig námsfyrirkomulag, kennsluhættir, námsaðlögun og námsmat á best við
Inntak: Á námskeiðinu verður lögð áhersla á eftirfarandi þætti:
• Áherslur aðalnámskrár í upplýsinga- og tæknimennt 
• Fjölbreytt læsi, grunnþættir og lykilhæfni
• Gerð hæfniviðmiða, viðfangsefnin í námsgreininni, námsaðlögun og fjölþætt námsmat með
áherslu á leiðsagnarmat
• Samþætting við önnur námssvið og góðar fyrirmyndir  að skólanámskrám, námsáætlunum og
hagnýtum verkefnum
• Samfella milli skólastiga: frá leikskóla til grunnskóla og frá grunnskóla til framhaldsskóla
• Örar tæknibreytingar og áhrif á námskrá
• Vinna með matsramma um stöðu skóla 
Kennari: Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir
Staður og tími: Vogaskóli 13. ágúst kl. 8:30 - 12:00.

22. Viðtalsfærni

Markhópur:  Umsjónakennarar o.fl.
Markmið: Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist grunn þekkingu á því hvernig á að byggja upp og stýra viðtölum við foreldra á farsælan hátt m.a. verða lykilatriði viðtalsfærni skoðuð og æfð og rætt um leiðir til að takast á við „erfiða“ foreldra.
Inntak: Erindi, umræður og æfingar.
Kennari: Nanna Kristín Christiansen, höfundur bókarinnar Skóli og skólaforeldrar, ný sýn á samstarfið um nemandann.
Staður og tími: Vogaskóli, 12. ágúst kl. 13:00 - 16:00.

23. Vinnusmiðjur í kynjafræði 1

Markhópur: Allir kennarar.
Markmið: Að efla faglega þekkingu kennara í kynjafræði
Inntak: Meðal annars verður fjallað um staðalímyndir og birtingarmyndir þeirra í skólastarfi, muninn á kyni og kyngervi, áhrif karlmennskuhugmynda á námsárangur drengja og áhrif kynjakerfisins á líðan stelpna. Þá verður einnig velt upp leiðum til úrbóta og gefið rými fyrir spurningar og umræður þátttakenda.
Kennari: Auður Magndís Auðardóttir verkefnastjóri Jafnréttisskólans
Staður og tími: Vogaskóli 12. ágúst kl. 13:00 - 15:00.

24. Vinnusmiðjur í kynjafræði 2

Markhópur: Allir kennarar.
Markmið:  Að efla faglega þekkingu kennara í kynjafræði
Inntak: Hagnýt hinseginfræði fyrir kennara. Fjallað verður um ýmis hinsegin hugtök, svo sem kynvitund, trans, kynsegin, kynverund, sam- pan- og tvíkynhneigð og ókyngreind persónufornöfn. Þá verður farið yfir niðurstöður rannsókna á líðan hinsegin ungmenna í skólakerfinu og leitað verður svara við því hvernig gera má grunnskóla að hinseginvænum og fordómalausum griðastað.
Kennari: Auður Magndís Auðardóttir verkefnastjóri Jafnréttisskólans.
Staður og tími: Vogaskóli 13. ágúst kl, 13:00 - 15:00.

Skráning á námskeið í haustsmiðjum.