Sköpunartorg á vef Reykjavíkurborgar

Mannlíf

""

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að Reykjavíkurborg taki til reynslu að bjóða upp á tilraunasvæði á vef borgarinnar, www.reykjavik.is, svo kallað Sköpunartorg. Um er að ræða framsækið lýðræðisverkefni þar sem tilraunasvæðið nýtist fyrir samráð og fjármögnun ýmissa verkefna.

Verkefnið er í anda þess sem forsætisráðuneyti Finnlands hefur sett upp á sinni vefsíðu. Sú síða er gerð, hýst og þjónustuð af íslenska fyrirtækinu Karolina Fund og var kynnt á fundi stjórnkerfis- og lýðræðisráðs þann 24. apríl sl.

Á vefsíðunni setja íbúar inn hugmyndir að ýmiss konar tilraunum, ræða þær og þróa í samvinnu, og geta óskað eftir að Reykjavíkurborg rýni þær. Þegar hugmynd þykir fullunnin er hægt að setja hana í hópfjármögnunarferli. Þar geta íbúar sjálfir fjármagnað hugmyndir og borgin á möguleika á að koma þar að, t.d. með því að leggja til fjármagn til jafns við það sem íbúar safna sjálfir, með styrkjum, með því að útvega hús- eða landsvæði, eða með öðrum hætti.
Svæðið er hugsað sem farvegur fyrir tilraunir sem íbúar hafa áhuga á en eiga annars ekki skýra leið innan Reykjavíkurborgar. Verkefni sem eru tímabundin, ekki í forgangi eins og er, eða utan ímyndunarafls Reykjavíkurborgar.

Tilraunaverkefni þetta verður til að byrja með hýst á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og útfært í samvinnu við skrifstofu þjónustu og reksturs, fjármálaskrifstofu og fagsvið borgarinnar eftir þörfum.

5 milljónum verður varið í að þróa vef á www.reykjavik.is í líkingu við þann sem er á vef forsætisráðuneytis Finnlands. Að auki verði  2.5 milljónum varið í rekstur síðunnar og 5.5 milljónir fari í hönnun á útliti verkefnisins og kynningu á því.