Skóla- og frístundaráð afhendir styrki

Skóli og frístund

""

Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs og Eva Einarsdóttir varaformaður afhentu í gær styrki til metnaðarfulls fagstarfs í skólum og frístundastarfi í borginni fyrir ríflega þrjátíu milljónir króna. 

Létt var yfir fólki við athöfn í Hannesarholti þegar almennir styrkir ráðsins og þróunarstyrkir voru afhentir, en tilgangur styrkveitinga er að stuðla að nýbreytni, fagmennsku, auknu samstarfi og rannsóknum. Alls  var úthlutað til 16 almennra verkefna og 38 þróunarverkefna.  

Við afgreiðslu almennra styrkja var haft að leiðarljósi að veita styrki til verkefna sem stuðla að auknu foreldrasamstarfi en fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf og kennsla í íslensku sem öðru máli var leiðarstef við veitingu þróunarstyrkja. 

Hæsti almenni styrkurinn, 600.000 kr. fór til ADHD- samtakanna til að útbúa námskeið á netinu fyrir leiðbeinendur í íþrótta- og tómstundastarfi. Verkefnið Sögupokinn sem miðar að því að efla íslenskukunnáttu fjölskyldna af erlendum uppruna, fékk næsthæsta styrkinn, 450.000 kr., og forvarnarverkefnið Ella umferðartröll og farandsýningin Undir himni, sem ætluð er leikskólabörnum, fengu 400.000 kr. styrk hvort.

Yfirlit yfir almenna styrki skóla- og frístundaráðs 2014. 

Hæsti þróunarstyrkurinn, 3 milljónir króna, rann til verkefnisins Fullgild þátttaka í Háaleitisskóla, en sá næsthæsti, 1,7 milljónir kr.  kom í hlut Frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti og verður varið til að kortleggja þátttöku barna í frístundastarfi. Þá fékk verkefnið Okkar mál 1,5 milljóna króna styrk, en það byggir á samstarfi leikskóla, grunnskóla, þjónustumiðstöðvar og Menntavísindasviðs HÍ um leiðir til að efla menningu, mál og læsi í Fellahverfi.

Yfirlit yfir þróunarstyrki skóla- og frístundaráðs 2014.

Alls hafa verið veittir styrkir fyrir ríflega áttatíu milljónir króna til þróunarverkefna í skóla- og frístundastarfi í borginni síðastliðin þrjú ár, eða frá því að sameinað skóla- og frístundasvið tók til starfa.