Skipulagssamkeppni um byggð á lóð Ríkisútvarpsins

Stjórnsýsla Umhverfi

""

Reykjavíkurborg og Ríkisútvarpið gengu í dag frá samkomulagi um lóðarréttindi og byggingarrétt í tengslum við skipulagssamkeppni um byggð á lóðinni Efstaleiti 1, en þar verður íbúðabyggð með leigu- og séreignaríbúðum.

Skipulagssamkeppnin nær til 59.000 fermetra svæðis sem afmarkast af Listabraut í norðri, Háaleitisbraut í austri, Bústaðavegi í suðri og Efstaleiti í vestri.  Samkeppnin er haldin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og á næstu dögum verður auglýst eftir þátttakendum.

Vonast er til að skipulagssamkeppnin skili framsæknum hugmyndum um nýja blandaða byggð, spennandi almenningsrými og fjölbreytta vistvæna samgöngumáta. Áhersla er lögð á að yfirbragð góðrar byggingarlistar einkenni svæðið og að það státi af heildstæðum götumyndum.

Auk almennra séreignaríbúða og möguleika á uppbyggingu verslunar og þjónustu er tryggt að einnig verði leiguíbúðir á reitnum. Gert er ráð fyrir blönduðu búsetuformi, en það eru séreignaríbúðir, leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir, félagslegar íbúðir og/eða nýtt búsetuform Reykjavíkurborgar sem nefnt er  „Reykjavíkurhús“.  Reykjavíkurborg mun ráðstafa 20% af samþykktum íbúðum til uppbyggingar leigumarkaðar en þó aldrei fleiri en 40 íbúðir. Félagsbústaðir hf. munu hafa kauprétt  á markaðsverði, fyrir allt að 5% af íbúðum á lóðinni fyrir félagslegt leiguhúsnæði.

Reykjavíkurborg mun gera lóðina byggingarhæfa með tilheyrandi gatna- og stígagerð ásamt götulýsingu og lögnum. Greidd verða gatnagerðargjöld af allri uppbyggingu eins og lög gera ráð fyrir.

Borgarstjóri og útvarpsstjóri Magnús Geir Þórðarson voru að vonum ánægðir með samkomulagið.„Þessir samningar eru fagnaðarefni fyrir borgina. Efstaleitið er frábært svæði, þaðan er stutt í alla lykilþjónustu og allir innviðir til staðar. Þetta er því frábær reitur til að þétta byggð og verður án efa eftirsóttur til búsetu“, segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.  „Við erum himinlifandi með þessa tvo stóru áfanga sem við fögnum í dag. Það er ánægjulegt að þróun lóðarinnar við Efstaleiti sé komin á svo góðan rekspöl og við höfum væntingar um að opin skipulagssamkeppni verði upphafið að  spennandi uppbyggingu svæðisins til framtíðar“, segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.