Skapandi greinar við Hlemm

Umhverfi Framkvæmdir

""

Nýtt setur skapandi greina hefur verið opnað við Hlemm og eru fulltrúar íslenskrar tónlistar þegar fluttir þar inn.  Í gær var þeim áfanga fagnað og jafnframt var kynnt stækkun á setrinu en á næstunni munu fleiri frumkvöðlar bætast í hópinn.

Mikil uppbygging er hafin í nágrenni við Hlemm og engin tilviljun að setri skapandi greina sé valinn þar staður. Borgaryfirvöld stefna að því að efla mannlíf, menningu, listir og sköpun á svæðinu.

Iceland Airwaves, Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), og Íslenska tónverkamiðstöðin hafa nú þegar komið sér notalega fyrir í húsnæðinu sem Reykjavíkurborg lagði til í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þessa dagana er verið að vinna að stækkun setursins inn í svokallaðan „Helli“ þar við hliðina. Með stækkuninni verður pláss fyrir fleiri skapandi frumkvöðla og fyrirtæki á besta stað í bænum.

Setur skapandi greina er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og sameinar hóp fyrirtækja og aðila á fjölbreyttu sviði skapandi greina. Að setrinu standa Reykjavíkurborg, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.