Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Gunter Damisch í Hafnarhúsinu 1. nóvember

Menning og listir Mannlíf

""

Sýningarnar Flatland eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur (f. 1977) og Veraldir og vegir eftir austurríska listamanninn Gunter Damisch (f.1958) verða opnaðar í Hafnarhúsinu laugardaginn 1. nóvember klukkan 16.

Titill sýningarinnar, Flatland, vísar m.a. til samnefndrar bókar frá 1884 eftir Edwin Abbott þar sem dregin er upp háðsádeila af lagskiptingu samfélagsins með tungumáli stærð- og rúmfræðinnar. Sirra Sigrún tekur þetta leiðarstef og tengir við hugleiðingar og vangaveltur um samtímann. Verkin á sýningunni teygja sig eftir huglægum ás gegnum A-sal Hafnarhússins. Viðfangsefnið er hugmyndin um upplýsingar í samfélaginu, hvernig þær eru settar fram og hvernig þær eru notaðar. Birtingamyndir upplýsinga eru ólíkar, allt frá valdníðslu til aukinnar þekkingar. Þær geta þjónað sem aflgjafi breytinga eða nært drauminn um óbreytt ástand.

Sirra Sigrún nam myndlist við Listaháskóla Íslands og School of Visual Arts, New York. Hún hefur sýnt víða, bæði hér heima og erlendis, m.a. í Hafnarborg, Listasafni Reykjavíkur og Tate Modern í London. Sirra Sigrún er einn stofnenda og eigenda sýningarstaðarins Kling & Bang í Reykjavík og er í hópi áhrifamikilla listamanna hér á landi. 

Sýning austurríska listamannsins Gunter Damisch (f. 1958) ber heitið Veraldir og vegir og er yfirlitssýning á verkum hans frá níunda áratugnum til dagsins í dag. Á sýningunni eru skúlptúr og grafísk verk sem listamaðurinn hefur gefið Listasafni Reykjavíkur ásamt úrvali annarra verka eftir hann. Öll verkin falla undir hugtakið „þrykk“ en aðferðir Damisch eru fjölbreyttar, allt frá hefðbundinni grafík til prentaðra trérista. Hann spjallar við gesti um sýningu sína sunnudaginn 2. nóvember klukkan 15.

Gunter Damisch varð þekktur á níunda áratugnum sem einn af  ,,Hinum nýju villtu“, Neue Wilde, sem var óformlegur hópur ungra listamanna sem brást við meintri hnignun málverksins á alþjóðavísu með því að mála kraftmiklar og litríkar myndir. Frá árinu 1992 hefur listamaðurinn verið prófessor við Listaháskólann í Vínarborg.