SidekickHealth smáforrit til heilsueflingar starfsfólks Reykjavíkurborgar

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifaði í dag undir samstarfssamning við Tryggva Þorgeirsson lækni og framkvæmdastjóra íslensk-sænska heilbrigðistæknifyrirtækisins SidekickHealth um notkun á hugbúnaði fyrirtækisins til að efla heilsu og vellíðan starfsfólks Reykjavíkurborgar.

SidekickHealth var stofnað árið 2013 af tveimur læknum, þeim Tryggva Þorgeirssyni og Sæmundi Oddssyni í þeim tilgangi að spá fyrir um og fyrirbyggja lífsstílssjúkdóma sem í dag valda um 70-80% heilbrigðiskostnaðar á Vesturlöndum. Þeir settu saman teymi af læknum, sálfræðingum, lýðheilsufræðingum, sem og öflugt teymi af heilbrigðisverkfræðingum og hugbúnaðarsérfræðingum með reynslu af leikjagerð. Útkoman var SidekickHealth, leikjavæddur hugbúnaður sem leiðir þátttakendur í gegnum lífsstílsbreytingar á sviði næringar, hreyfingar og hugræktar á skemmtilegan og einfaldan hátt.

SidekickHealth hugbúnaðurinn nýtir atferlishagfræði, leikjatækni og gervigreind til að hafa jákvæð áhrif á heilsuhegðun í þeim tilgangi að draga úr algengi og alvarleika lífsstílstengdra sjúkdóma svo sem sykursýki af tegund 2, hjarta- og æðasjúkdóma.

Starfsmenn Reykjavíkurborgar munu fá aðgang að smáforriti (appi) sem nefnist SidekickHealth þar sem m. a. er hægt að nálgast heilsutengda leiki og er boðið upp á áskoranir  milli starfsmanna. Starfsfólk mun bæði geta notað forritið til heilsueflingar fyrir sig persónulega og sem hluti af liði sem keppir við önnur lið innan borgarinnar í heilsueflandi æfingum og hollu mataræði. Starfsmenn geta  sett sér markmið varðandi t.d. mataræði, hreyfingu og hugrækt.

Markvisst er unnið að heilsueflingu og heilsueflandi stjórnun hjá Reykjavíkurborg og  með tilkomu SidekickHealth verður lögð enn meiri áhersla á þessa þætti. Það hefur sýnt sig að vinnuveitendur sem hlúa að heilsu starfsmanna hafa ekki eingöngu jákvæð áhrif á starfsmennina heldur geta þeir einnig haft áhrif á fjölskyldu starfsmannsins og samfélagið í heild.

Heilsueflingin meðal starfsmanna verður gerð með ýmsum hætti þar á meðal með Heilsuleikum Reykjavíkurborgar  sem fara fram 26.apríl – 17.maí nk.  Í heilsuleikum verða starfsmenn hvattir til að sinna heilsunni með leikgleðina að leiðarljósi og verður sjónum beint að bæði líkamlegri og andlegri heilsu sem og mataræði.  Um leið og starfsfólk borgarinnar eflir heilsu sína þá safnar það hreinu vatni fyrir börn í neyð með þátttöku sinni, en SidekickHealth og Reykajvíkurborg styrkja UNICEF í hlutfalli við virkni þátttakenda.

Borgarstjóri segir SidekickHealth forritið vera snjalla hugbúnaðarlausn til bættrar heilsu. ,,Smáforritið er skemmtilegt í notkun og með því að sameina gervigreind, smáforrit í síma og vísindalegar aðferðir með hvetjandi innihaldi má minnka áhættu sem tengist lífsstílssjúkdómum. Þannig viljum við stuðla að betri heilsu og líðan starfsmanna borgarinnar sem um leið láta gott af sér leiða með vatnssöfnun handa börnum í neyð.”

Tryggvi Þorgeirsson, læknir og framkvæmdastjóri tók í sama streng og sagðist hlakka til samstarfsins.,,Við höfum starfað með fjölda fyrirtækja og stofnana bæði hér á landi og erlendis og hafa þúsundir notenda gert yfir milljón heilsueflandi æfingar með hugbúnaðinum með frábærum árangri. Reykjavíkurborg er stærsti einstaki vinnustaðurinn sem við höfum starfað með, en hann telur 9000 manns, og því er þetta spennandi verkefni fyrir okkur“.

Nánari upplýsingar má finna á www.sidekickhealth.com.