Seltjarnarnes og Reykjavík efla samstarf í íþróttum

Stjórnsýsla Skóli og frístund

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness skrifuðu í gær undir samning um sameiginlegan rekstur á nýju fimleikahúsi sem reist verður við hlið núverandi íþróttamannvirkja við Suðurströnd á Seltjarnarnesi.

Gert er ráð fyrir að fimleikahúsið verði tekið í notkun á árinu 2018. Reykjavíkurborg mun greiða leigu á aðstöðu fyrir iðkendur sem búsettir eru í Reykjavík. Gildistími samningsins er 20 ár frá því að aðstaðan verður tekin í notkun. Að samningstíma liðnum framlengist samningurinn um fimm ár í senn.

Skrifað var undir samninginn við upphaf fimleikaæfingar síðdegis í gær og við sama tækifæri skrifuðu Íþróttafélagið Grótta, Knattspyrnufélag Reykjavíkur, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg  undir yfirlýsingu um að setja af stað vinnu við að skoða frekara samstarf og skipulagningu íþróttastarfs fyrir börn og unglinga og afreksfólk í bæjarfélögunum.

Elín Smáradóttir, formaður aðalstjórnar Gróttu og Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður aðalstjórnar KR, skrifuðu undir fyrir sín félög.

Tengt efni:
Íþróttamiðstöð Seltjarnarness: Skýrsla starfshóps um fimleika á Seltjarnarnesi, júlí 2013