Selásskóli fær fjórða Grænfánann á Degi íslenskrar náttúru

Skóli og frístund

""

Umhverfisráðherra og fulltrúar Landverndar afhentu börnum og starfsfólki Grænfánann, en Selásskóli fékk fyrstur skóla á landinu Grænfána á árinu 2002.   

Selásskóli hefur í mörg ár verið virkur í umhverfisvernd og tekið þátt í verkefninu Skólar á grænni grein sem er stýrt af Landvernd. Í morgun uppskar skólinn í fjórða sinn árangur af þessu mikilvæga starfi þegar Grænfáninn var þar dreginn að húni. Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur sem hóf umhverfisstarfið í Selásskóla fagnaði þessum áfanga með börnunum og starfsfólki, en skólinn hefur markað sér sérstöðu í umhverfismennt og útikennslu enda stutt í fallega náttúru í næsta nágrenni skólans. 

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra, aðstoðaði umhverfisnefnd skólans við að draga upp Grænfánann í morgun en að því loknu fór fram stutt athöfn þar sem ráðherra afhenti fulltrúum Landverndar tveggja milljóna króna styrk til að þróa enn frekar Grænfánaverkefnið með skemmtilegum verkefnum í kennslu og daglegu umhverfisstarfi leik- og grunnskóla í landinu.  

Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning og umhverfismerki sem nýtur virðingar víðs vegar í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.