Samstarf um leiðir til að auka nýliðun meðal leikskólakennara

Skóli og frístund

""

Starfshópur á að leita leiða til að fjölga leikskólakennurum og bæta starfsumhverfi þeirra á leikskólum borgarinnar. Þetta var ákveðið á fundi skóla- og frístundaráðs í dag. 

Samþykktin felur í sér að efnt verður til formlegs samstarfs við félög leikskólakennara, háskóla og mennta- og menningarmálaráðuneyti sem stefni að því markmiði að gera starf leikskólakennara eftirsóknarverðari. Meðal annars verður áhersla lögð á að fjölga karlkyns leikskólakennurum, auka umræðu um mikilvægi og inntak starfsins í samfélaginu og efla kennaramenntun þar með talið vettvangsnám. Einnig verður litið til þess hvernig megi ná til þeirra sem aflað hafa sér kennsluréttinda en valið sér annan starfsvettvang en skólastarf.    

Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum skóla – og frístundaráðs, Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda í leikskólum, Félags foreldra leikskólabarna, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands, þar með talið menntavísindasviðs og mennta- og menningarmálaráðuneytisins, auk fulltrúa skóla- og frístundasviðs.

Áður hefur skóla- og frístundaráð samþykkt að efna til sambærilegs samstarfs við stéttarfélög, háskóla og ráðuneyti um leiðir til að styrkja faglega stöðu grunnskólakennara. Sjá frétt