Samstarf um jarðvegsskipti á Hlíðarenda

Umhverfi Skipulagsmál

""

Jarðvegframkvæmdir á Hlíðarendareit þar sem rísa mun 600 íbúða hverfi ásamt húsnæði fyrir þjónustustarfsemi hefjast á næsta ári. Framkvæmdatími verður 4 – 6 ár og yfir þann tíma er gert ráð fyrir að flytja þurfi á brott allt að 500.000 rúmmetra af jarðvegi, einkum mómold. Inn á svæðið þarf svo að flytja burðar- og fyllingarefni. 

Til að leysa þetta verkefni með vistvænum og hagkvæmum hætti er óskað eftir samstarfi um útvegun og flutning á efni inn og út af svæðinu.  Annars vegar við þá sem geta útvegað burðarhæft efni í undirfyllingar og hins vegar við þá sem geta tekið við efni til jarðvegsfyllingar t.d. í hljóðmanir, garða, golfvelli o.fl. Með góðu samstarfi verður dregið úr akstri um langan veg og efni nýtt með minni tilkostnaði.

„Þörfin verður nokkuð jöfn og þétt yfir framkvæmdatímann,“ segir Helgi Geirharðsson verkefnisstjóri. „Við viljum gjarnan vera í sambandi við þá sem telja sig eiga samleið í þessum málum.“

Allir kostir koma til greina hvað varðar magn og tegundir efna og verður öllum svarað. Valkostum verður stillt upp eftir hagkvæmi og tímaröð til að velja samstarfsaðila. Sérstaklega er leitað að þeim sem þurfa jarðvegsfyllingar í hljóðmanir, garða og golfvelli og svo hinsvegar þeim sem útvegað geta burðarhæft efni í undirfyllingar, eins og t.d. úr húsgrunnum.

Áhugasamir eru hvattir til að senda upplýsingar á netfangið hlidarendi@reykjavik.is fyrir 20. janúar 2015. Þeir sem lýsa yfir áhuga verður boðið til kynningarfundar.

Tengdar síður: